Ný rannsókn Kristins Tómassonar, yfirlæknis hjá Vinnueftirliti ríkisins, leiðir í ljós að innflutningsbann við asbesti árið 1983 virðist ekki hafa borið tilætlaðan árangur heldur hafi fjöldi tilfella fleiðruþekjuæxlis farið upp á við.
Mikið var flutt inn af asbesti á sínum tíma en það er að finna einna helst í klæðningum eldri húsa, véla og annarra mannvirkja. Asbest getur, ef það er rangt meðhöndlað, valdið afbrigði krabbameins sem nefnist fleiðruþekjuæxli. Spurningin sem vakti fyrir rannsakendum við framkvæmd rannsóknarinnar var hver árangurinn hafi verið af banninu, nú þegar yfir 30 ár eru liðin síðan bannið var sett.
„Það sem við sjáum í þessu er að fjöldi asbest-tilfella hefur farið upp á við yfir tímabilið og í rauninni er mestur núna á síðasta 10 ára tímabili,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is. „Það segir okkur að við erum ekki farin að sjá árangurinn af þessu banni.“
Upphafleg kenning rannsakenda var að ekki yrði vart við viðvarandi aukningu á síðasta tímabili. „Við vorum að vonast til þess að þetta bann myndi leiða til þess að aukningin yrði framundir 2004-2005 en að eftir 2005 myndi það detta niður en það gerir það ekki,“ segir Kristinn.
Bendir það til þess að umfangið hér á landi, hvað varðar magn asbests og vinnu við efnið, hafi verið af annarri stærðargráðu en rannsakendur höfðu ætlað fyrir. Segir Kristinn það vera svolítið í samræmi við það að hámarki innflutnings var náð rétt fyrir 1980 en tíminn sem líður frá því að byrjað er að vinna við asbest og þar til fólk veikist er allt frá 15 til 40 eða 50 ár.
„Þannig að við hefðum trúað því að núna, þegar það er árið 2016 og að verða 33 liðin frá banni, þá hefði maður svo sem trúað því að það ætti að fara að minnka en við erum ekki að sjá þessa minnkun ennþá,“ segir Kristinn.
Rannsóknin tók einungis til fleiðruþekjuæxlis en ekki annarra kvilla en asbest getur einnig leitt til alvarlegra lungnasjúkdóma. Fleiðruþekjuæxli er þó langalgengasta meinið og er asbest helsti orsakavaldur þess hér á landi.
Sé asbest rétt meðhöndlað er efnið skaðlaust að sögn Kristins en strangar reglur lúta að því hvernig skal vinna að niðurrifi þess. Vinnueftirlitið gefur út leiðbeiningar um hvernig skal vinna við og meðhöndla asbest og þarf sérstakt leyfi Heilbrigðiseftirlitsins varðandi förgun þess.
Algengara er að karlmenn greinist með fleiðruþekjuæxli en konur en líklega er það vegna þess að fleiri karlar en konur vinna við niðurrif asbests. „Þetta er fyrst og fremst sjúkdómur iðnaðarmannsins,“ segir Kristinn.
Vinnueftirlitið leggur mikla áherslu á rétta meðhöndlun efnisins og annast fræðslu iðnaðarmanna um hættur þess. Er það von Kristins að niðurstöður rannsóknarinnar séu áminning til þeirra sem meðhöndla asbest um að bera sig rétt að.
Kristinn tekur fram að þó asbest sé í húsum eða tækjum fólks, sé þó óþarfi að fara sérstaklega á taugum yfir því. Á meðan að asbest er heilt og óskemmt stafar ekki af því hætta.
Kristinn segir að á næstu 10-15 árum megi vonast til þess að tjón af asbesti fari minnkandi. Hann undirstrikar mikilvægi þess, við þá sem búa í eldri húsum eða nota eldri tæki þar sem asbest getur leynst, að vinna með efnið eftir viðurkenndum hætti og hafa til þess bær réttindi og kunnáttu svo ekki hljótist skaði af.