Nýr ferðaskáli við Álftavatn á Rangárvallaafrétti er nú tilbúinn til notkunar, en hann er staðsettur við Laugaveginn, eina fjölförnustu gönguleið landsins.
Að baki rekstrinum er ferðaþjónustufyrirtækið Holtungar ehf., en skálinn er sá fyrsti á svæðinu sem er ekki á vegum ferðafélaganna. Haraldur Eiríksson og Guðrún Arnbjörg Óttarsdóttir, að Grásteinsholti reka hinn nýja skála. Segja þau hann vera góðan valkost fyrir göngufólk á Laugavegi.
Haraldur segir sérstöðu skálans meðal annars felast í staðsetningunni og fallegu útsýni. Er hann staðsettur nærri miðju Laugavegar, en 23 kílómetrar eru frá Landmannalaugum að Álftavatni og 33 kílómetrar frá Álftavatni í Þórsmörk.
Líkt og fram kom i Morgunblaðinu og mbl.is fyrr í sumar er gistirými á vinsælustu hálendisstöðum víða uppbókað í sumar. Aukning ferðamannastraumsins birtist í því að æ fleiri ferðamenn gista í tjöldum á hálendinu.
„Það er mikill áhugi á hálendisferðum og aukning á milli ára,“ sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands (FÍ) í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að skálagisting á vinsælustu stöðunum hefði verið uppbókuð undanfarin sumur líkt og í sumar. Skálar FÍ rúma gjarnan 60-80 næturgesti hver.
Páll sagði í viðtali við Morgunblaðið í júlí að þau hjá Ferðafélagi Íslands hefðu nokkrar áhyggjur af þróuninni og þá helst af því að aðstaðan annaði ekki síauknum fjölda ferðamanna. Hann sagði það vera löngu tímabært að ræða við ferðaþjónustuna og Umhverfisstofnun um hvort ekki þyrfti að stýra fjölda ferðamanna inn á Friðland að Fjallabaki, einkum Laugaveginn. Páll sagði að þorrinn af göngufólkinu færi Laugaveginn. Margar aðrar gönguleiðir eru í boði en ekki nærri eins fjölfarnar.
„Það má alveg segja að Laugavegurinn sé sprunginn á háannatímanum út frá gistiaðstöðu og eins umgengni við náttúruna,“ sagði Páll. Göngufólkið á Laugaveginum er að mestu leyti, líklega um 70%, erlendir ferðamenn. Þeir koma ýmist á eigin vegum eða í skipulögðum ferðum á vegum íslenskra og erlendra ferðaskrifstofa. Umferð þeirra sem ferðast á eigin vegum hefur aukist. Ferðaskrifstofurnar skipuleggja yfirleitt trússferðir og er farangri og viðlegubúnaði ekið á milli næturstaða. Þeir sem ferðast á eigin vegum bera sjálfir allt sitt hafurtask.
Páll sagði að ótal margar aðrar góðar gönguleiðir en Laugavegur væru í boði, t.d. Kjalvegur og Kerlingarfjöll, Strútsstígur, Lónsöræfi, Víknaslóðir og Öskjuvegur. Þetta væru allt mjög fallegar og góðar leiðir þar sem væri ágætis aðstaða fyrir göngufólk. Laugavegurinn er orðinn mjög þekktur út um heim og eftir því eftirsóttur. National Geographic valdi hann eina bestu gönguleið í heiminum. Laugavegurinn þykir einstakur fyrir fjölbreytt landslag auk þess sem leiðin er ekki mjög langt frá höfuðborgarsvæðinu.
Páll sagði að Laugavegurinn væri að stórum hluta í góðu lagi, enda lægi hann m.a. yfir hraun og sanda. Komnar eru álagsskemmdir á viðkvæmustu köflunum eins og í Grashaga og niður Jökultungur. Sjálfboðaliðar á vegum FÍ og Umhverfisstofnunar hafa unnið að lagfæringum á skemmdunum. Páll sagði að komið væri að stórtækari framkvæmdum á þeim svæðum.