Dráttarvélar eru dýrleg tæki

Dráttarvélasafn. Ketill Tryggvason, bóndi á Hallgilsstöðum, með fallegan Ferguson úr …
Dráttarvélasafn. Ketill Tryggvason, bóndi á Hallgilsstöðum, með fallegan Ferguson úr dráttarvélamódelasafninu. mbl.is/Atli Vigfússon

„Ég eignaðist eina flotta dráttarvél og svo aðra og aðra. Þannig kviknaði áhuginn og nú á ég alls um 400 stykki þegar aftanítækin eru talin með. Margt af þessum dráttarvélum mínum eru mjög vönduð módel og öll smáatriði á sínum stað.“

Þetta segir Ketill Tryggvason, bóndi á Hallgilsstöðum í Þingeyjarsveit, en dráttarvélasafnið hans hefur verið til sýnis í Gamla barnaskólanum í Skógum í Fnjóskadal undanfarnar helgar.

„Ég hef verið að safna þessum dráttarvélum síðustu tíu árin og alltaf bætist við. Hins vegar var ég byrjaður fyrir nokkuð löngu, en íbúðarhúsið heima á Hallgilsstöðum brann og ég missti safnið mitt, þ.e. 100 vélar, í eldinum. Margar af þeim vélum sem þá fóru hef ég fengið aftur, en sumar þeirra hafa ekki fengist og því var tjónið mikið,“ segir Ketill sem hefur mjög mikinn áhuga á fjölbreytileika dráttarvélanna. „Ég legg mikið upp úr því að eignast sem flestar tegundir, en það er nokkuð misjafnt hve mikið er til af módelum innan hvers merkis.“

Ketill þekkir vel nokkra söluaðila dráttarvéla hér á landi og fylgist með því hvað fæst af módelum á hverjum tíma. Söluaðilarnir eru í góðu sambandi við birgja víða í Evrópu og láta þeir hann vita ef eitthvað áhugavert kemur úr framleiðslu. Þetta eru ekki allt ódýr módel, en Ketill segir að öll áhugamál kosti sitt. Hann hafi af þessu mjög mikla ánægju.

Ketill hefur ekki bara áhuga á módelunum heldur líka á alvöru dráttarvélum. Hann á 10 dráttarvélar til að hafa í búskapnum, þ.e. 5 Massey Ferguson, 1 Deutz, 1 Ford, 1 Kubota, 1 Landini og 1 Steyr. Hann segir að auðvitað séu þær ekki allar verðmiklar, sumar séu gamlar og komnar á tíma, en honum finnist gaman að halda í þær og dytta að þeim.

Virkur í Ferguson-félaginu

Ketill er virkur í Ferguson-félaginu og þar er margt spjallað enda margir að gera upp dráttarvélar. Svo virðist sem áhugi sé vaxandi á því að halda í gamlar vélar og víða er hægt að fá varahluti. Dráttarvélar eru á margan hátt dýrleg tæki og notagildi þeirra er ótrúlega margvíslegt. Það hefur Ketill á Hallgilsstöðum verið að sýna gestum sínum á sýningunni með öllum módelunum og hefur hann vakið áhuga margra á þessum nytsömu búvélum enda alltaf viðstaddur á sýningartíma. Margir hafa lýst ánægju sinni yfir þessari óvenjulegu sýningu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert