„Við höfum ekki undan að svara fyrirspurnum um Reykjadal. Ferðamenn vilja fá upplýsingar um heitu ána sem þeir geta baðað sig í.“
Þetta segir Sigurdís Lilja Guðjónsdóttir, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands í Hveragerði, í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir fyrirspurnum um Reykjadal í Hveragerði hafa fjölgað mikið undanfarin ár, sérstaklega milli áranna 2014 og 2015 en þá hafi orðið hálfgerð sprenging. Hún segir fyrirspurnirnar vera svipaðar núna í ár og í fyrra. „Það hefur alltaf verið vinsælt hjá ferðamönnum að baða sig í heitum ám og lækjum úti í náttúrunni,“ segir Sigurdís.