Afar fjölmennt var á súpukvöldi á Dalvík í kvöld, en kvöldið fyrir fiskidaginn mikla er hefð að íbúar bæjarins bjóði gestum og gangandi í fiskisúpu í heimahúsi eða úti á götu. Mikil veðurblíða var í kvöld og eins og myndirnar sýna var glatt á hjalla innandyra sem utan í kvöld.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var gestur á hátíðinni í dag og fékk hann súpu hjá Guðmundi Kristjánssyni, íbúa í bænum. Á morgun er svo sjálfur fiskidagurinn, en þá munu fyrirtæki í bænum bjóða gestum hátíðarinnar ýmiskonar fiskirétti. Á boðstólum verða 120 þúsund matarskammtar og eins og ævinlega gestum að kostnaðarlausu.