Tveir ráðherrar Framsóknarflokksins funda nú með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, á heimili hans í Garðabæ. Ráðherrabifreiðar Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra eru fyrir utan húsið og bílstjórar ráðherrana í bílunum.
Greint var frá því í morgun að flokksþing flokksins væri mögulega í kortunum, en landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman í gær og var þá tekin ákvörðun um haustfund miðstjórnar í byrjun september. Er í skoðun að halda flokksþing, sem alla jafna er haldið annað hvert ár og var síðast haldið í fyrra.
Uppfært 17.15: Ráðherrarnir tveir eru nú farnir af fundinum.
Uppfært 17:31: Samkvæmt heimildum mbl.is er Matthías Imsland, aðstoðarmaður Sigmundar nú mættur til fundar við Sigmund.