Bjartur Snær Guðmundsson fæddist 30. desember árið 2012 með Downs-heilkenni og hjartagalla. Foreldrar Bjarts, þau Nanna Andrea Jónsdóttir og Guðmundur Kristján Hermundsson, ætla að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir Bjart, en þó ekki fyrir sama félagið.
Nanna Andrea, móðir Bjarts, segir hann vera einstaklega skemmtilegan dreng með sterkan persónuleika, hann sé glaður og ákveðinn og viti vel hvað hann vill. „Hann er yfirleitt brosandi, það er alveg sama hversu veikur hann er,“ segir Nanna í samtali við mbl.is.
Bjartur er með mjög veikt ónæmiskerfi og geta pestir og flensur því lagst illa á hann en alltaf er þó stutt í brosið hjá Bjarti. „Hann er mjög sterkur og yfirleitt fær maður alltaf bros, hann þarf að vera mjög veikur til að maður fái ekki bros,“ segir Nanna.
Þótt Nanna og Guðmundur ætli bæði að hlaupa fyrir Bjart, hlaupa þau þó fyrir hvort sitt félagið sem bæði standa þeim nærri. Nanna hleypur fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna, og Guðmundur fyrir Félag áhugafólks um Downs-heilkenni. „Þessi félög eru þau sem eru búin að standa svona við bakið á okkur núna,“ segir Nanna.
„Downs-félagið náttúrlega hefur bara verið okkar stuðningur og á bak við hann,“ segir Nanna en það hefur Neistinn verið einnig. Í júní 2015 fór Bjartur til Lundar í Svíþjóð þar sem hann gekkst undir hjartaaðgerð og studdi Neistinn við fjölskylduna í því ferli.
„Það gengur bara mjög vel með hann í dag,“ segir Nanna, þótt oft verði Bjartur veikur. Hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús rétt fyrir verslunarmannahelgi þegar gubbupest lagðist illa í Bjart en að sögn Nönnu er hann flesta daga mjög hress og kátur.
Bjartur Snær gengur í leikskóla á Sauðárkróki þar sem fjölskyldan er búsett og er yngstur þriggja systkina. „Hann alveg dýrkar systkini sín og þau hann,“ segir Nanna og eru þau systkinin miklir vinir.
Í gegnum Downs-félagið hefur fjölskyldan kynnst fleiri foreldrum sem eiga börn með Downs en einnig eiga þau vinafólk í Skagafirði sem á barn með Downs.
Bæði Nanna og Guðmundur taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni í fyrsta sinn í ár en segir Nanna hafa blundað í þeim löngun til að taka þátt frá því Bjartur kom í heiminn.
„Það styttist óðum í þetta,“ segir Nanna sem segir æfingar ganga nokkuð vel. Þau hjón eru ekki miklir hlauparar að sögn Nönnu en „maður svona eiginlega smitaðist svolítið af þessu þegar hann var bara hálfsársgamall.“
Það er þeirra hugsun með þátttöku sinni í hlaupinu að leggja sitt af mörkum í þakklætisskyni við félögin tvö fyrir þann stuðning sem þau hafa notið síðan brosmildi Bjartur fæddist.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram 20. ágúst næstkomandi. Hægt er að heita á foreldra Bjarts Snæs í gegnum heimasíðu Hlaupastyrks, Nönnu Andreu hér og Guðmund Kristján hér.