Margir af sterkustu skákmönnum Íslands hafa boðað komu sína á skákmótið á Reykhólum 20. ágúst en mótið er haldið í minningu Birnu E. Norðdahl, fyrrverandi skákmanns. Hún varð tvívegis Íslandsmeistari kvenna í skák, árin 1976 og 1980, og var frumkvöðull að þátttöku íslenska kvennalandsliðsins á ólympíuskákmótinu í Buenos Aires árið 1978. Birna fæddist árið 1919 og lést í febrúar 2004.
Tefldar verða átta umferðir á mótinu með 10 mínútna umhugsunartíma en hugmyndin að mótinu kemur frá Hlyni Þór Magnússyni ritstjóra Reykhólavefjarins. Verðlaunafé mótsins nemur 400 þúsund krónum og verður því skipt jafnt milli karla og kvenna. Hrafn Jökulsson, einn skipuleggjanda mótsins, telur að það sé nýlunda á skákmóti að verðlaunafé sé það sama fyrir bæði kyn, sem sé mjög viðeigandi á minningarmóti um Birnu.
Meðal þeirra sem hafa boðað komu sína er allt kvennalið Íslands í skák, Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands í skák, Jón L. Árnason stórmeistari, Jóhann Hjartarson stórmeistari, Björn Ívar Karlsson landsliðseinvaldur og Björn Þorfinnsson, alþjóðlegur meistari.
„Það gera sér fáir grein fyrir því hvað skákheimurinn var ofboðslega karlmiðaður um það leyti sem hún og aðrir brautryðjendur komu fram,“ segir Hrafn. „Í tveggja binda sögu Skáksambands Íslands, sem telur nokkur hundruð blaðsíður, eru að mig minnir fimm blaðsíður lagðar undir kvennaskák. Þær síður hefjast með henni.“
Hrafn, sem hefur á undanförnum árum unnið að uppbyggingu skákstarfsins hér á landi og í Grænlandi, segir sér aldrei hafa hlotnast sá heiður að kynnast Birnu persónulega. „Þó ég hafi ekki kynnst henni persónulega hef ég hrifist mjög af hennar sögu og hennar framlagi,“ segir Hrafn.
Nefnir hann hvernig henni hafi tekist að gjörbreyta hugsunarhætti í íslensku skákhreyfingunni og efla skákiðkun kvenna svo um munaði. „Henni tókst nánast upp á eigin spýtur að senda lið á ólympíuskákmótið í annarri heimsálfu. Það er ekki fyrir hvern sem er,“ segir Hrafn og bætir við að þar að auki hafi hún verið sterkur skákmaður sem tvöfaldur Íslandsmeistaratitill vitnar skýrast um.
Hrafn velkist ekki í nokkrum vafa um það hvort Birna hefði talið hlut kvenna orðinn eins mikinn og raun ber vitni í skákhreyfingunni í dag þegar hún hóf að ryðja veginn á sínum tíma. „Birna var hugsjónakona og hugsjónafólk hefur tilhneigingu til að sjá langt fram í tímann, reyndar eins og góðir skákmenn.“