Gleðin allsráðandi í göngunni

Mikið líf var í bænum í dag í kringum Gleðigönguna.
Mikið líf var í bænum í dag í kringum Gleðigönguna. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Það var mikil gleði í miðborginni í dag þar sem Gleðigangan, hápunktur Hinsegin daga í Reykjavík, var farin.

Regnbogalitirnir voru allsráðandi; regnbogafánar, regnbogahárkollur, regnbogahálsbönd, regnbogaregnhlífar, regnbogapils, regnbogagleraugu og raunar allt sem hægt var að bera með regnbogalitunum mátti sjá hjá þúsundum fólks, hinsegin og ekki hinsegin.

Vagnar gleðigöngunnar renndu svo löturhægt frá Vatnsmýrarvegi, meðfram tjörninni og niður að Arnarhóli, þar sem kynnar hátíðarinnar, sem þar fór fram, Siggi Gunnars og Úlfhildur Eysteinsdóttir, kynntu vagnana.

Meðal þeirra sem höfðu vagn í göngunni voru skátarnir, Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar, hinsegin barinn Kiki, Roller Derby Ísland, Hinsegin kórinn og fleiri. Páll Óskar Hjálmtýsson rak síðan lestina, dansandi og syngjandi á risavöxnum einhyrningi, sem vakti mikla athygli, enda glæsilegur.

Páll Óskar og dansarar á einhyrningnum sem þeir óku.
Páll Óskar og dansarar á einhyrningnum sem þeir óku. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Mikil gleði var bæði meðal þeirra sem gengu og dönsuðu á vögnum og þeirra sem fylgdust með. Ljómandi sumarveður var í miðborginni og lét sú gula sjá sig á köflum. Mbl.is ræddi við nokkra á staðnum, sem allir voru sammála um þá skemmtun sem felst í Gleðigöngunni.

„Þetta er nýi 17. júní“

„17. júní er bara dáinn, þetta er er nýi 17. júní“,  segir Sunna Björk Þorsteinsdóttir, sem fylgdist með ásamt sonum sínum, Degi Mána og Hauki.

„Mér finnst æðislegt að sjá vagnana og fólkið og litina. Svo er æðislegt að sjá bara hvað það eru margir, samstaðan.“

Segja þau, líkt og allir viðmælendur mbl.is í dag, að alltaf sé jafnskemmtilegt að mæta í gönguna. „Það er alltaf gleði, væntumþykja og hlýja. Þetta er allt önnur mynd af heiminum en maður er vanur að sjá dagsdaglega.“

Sunna Björk, Dagur Máni og Haukur.
Sunna Björk, Dagur Máni og Haukur. mbl.is/Vífill

Bergþóra Sveinsdóttir og Hjördís Björnsdóttir voru í óða önn að undirbúa bíl skátanna þegar blaðamann bar að garði, en skátarnir tóku þátt í Gleðigöngunni í þriðja sinn í ár.

„Við erum hér til að sýna að skátarnir eru stærsta æskulýðshreyfing í heiminum og að við erum opin fyrir alls konar fólki, allir eru velkomnir og allir geta verið eins og þeir vilja vera“, segir Bergþóra.

Þær vilji sýna hinsegin samfélaginu stuðning og virðingu og „sýna öðrum skátabandalögum í heiminum að íslenska skátahreyfingin er opin fyrir alls konar fólki.“

„Þetta er mjög mikil stemmning. Alltaf jafngaman á hverju ári.“

Bergþóra Sveinsdóttir og Hjördís Björnsdóttir.
Bergþóra Sveinsdóttir og Hjördís Björnsdóttir. mbl.is/Vífill

„Þetta er alltaf jafngaman og núna er veðrið með okkur,“ segir Gísli Ólafsson sem fylgdist með göngunni ásamt Helgu Guðmundsdóttur.

„Hún er mikilvæg til að sýna fólki fram á hvað sé til í veröldinni. Við erum ekkert öll eins,“ segir Helga um gönguna og Gísli bætir við að hún gefi hinsegin fólkinu „séns á að fíla sig.“

Helga Guðmundsdóttir og Gísli Ólafsson.
Helga Guðmundsdóttir og Gísli Ólafsson. mbl.is/Vífill
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert