Knattspyrna, kristni og BDSM

Fordómarnir voru bornir til grafar í dag.
Fordómarnir voru bornir til grafar í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það voru fjöl­breytt­ir hóp­ar sem tóku þátt í Gleðigöng­unni í dag og óku bæði og gengu að Arn­ar­hóli ásamt fríðu föru­neyti. Knatt­spyrna, kristni og BDSM voru á meðal þeirra mál­efna sem hóp­ar göng­unn­ar stóðu fyr­ir og ræddi mbl.is við nokkra þegar gang­an var við það að hefjast.

For­dóm­ar inn­an knatt­spyrnu­hreyf­ing­ar­inn­ar

Knatt­spyrnu­fé­lagið Styrm­ir lét sig ekki vanta í Gleðigöng­una í ár og segja þeir Jón Þór, Pét­ur Björg­vin og Pét­ur Óli fé­lagið hafa sett sig í sam­band við Knatt­spyrnu­fé­lag Íslands, sem hafði síðan sam­band við aðild­ar­fé­lög sín og hvatti þau til að mæta í göng­una.

For­dóm­ar inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar hafa oft verið í umræðunni, þá sér­stak­lega í knatt­spyrnu karla, þar sem homm­ar inn­an knatt­spyrnu­hreyf­ing­ar­inn­ar virðast hreint ekki koma út. Þeir Styrmis­menn telja for­dóm­ana fyrst og fremst stafa af fá­fræði, enda sé það hún sem valdi for­dóm­um.

„Von­andi er þetta eitt­hvað sem er lítið um í dag og verður minna um eft­ir dag­inn í dag. Þegar við stofnuðum fé­lagið var í raun­inni þörf fyr­ir að hafa þetta í sér fé­lagi. Við verðum auðvitað fegn­ast­ir ef þetta verður þannig að það þurfi ekki sér fé­lag, menn geti bara komið út í sín­um fé­lög­um.“

„Það opnaðist svo­lítið á þá umræðu í vet­ur og þess vegna erum við byrjaðir í sam­starfi við KSÍ og reyn­um að út­rýma þess­um for­dóm­um.“

Jón Þór, Pétur Björgvin og Pétur Óli.
Jón Þór, Pét­ur Björg­vin og Pét­ur Óli. mbl.is/​Víf­ill

Þrótt­ar­ar svöruðu kall­inu og tóku þátt í göng­unni í dag. „Við erum bara að taka þátt í göng­unni eins og all­ir aðrir og styðjum heils­hug­ar íþrótt­ir án for­dóma. Það er okk­ar ánægja að taka þátt og vera með í gleðinni í dag.“

Segja þeir for­dóma gegn hinseg­in fólki ekki eiga heima í íþrótt­um, neitt frek­ar en ann­ars kon­ar for­dóma. „Þeir eiga ekki heima í íþrótt­um, eða bara líf­inu yfir höfuð. Þeir eiga eng­an stað hér.“

En hvers vegna hald­ast for­dóm­ar gegn hinseg­in fólki svo vel inn­an íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar, þá sér í lagi knatt­spyrnu? „Ég veit það ekki. Það er bara eins og al­mennt í líf­inu, þar sem eru for­dóm­ar þá eru þeir, hvort sem það er í íþrótt­um eða öðru. Við verðum bara að standa sam­an og út­rýma þeim hvar sem þeir eru.“

„Þetta er nátt­úr­lega karla­heim­ur. Kon­urn­ar eru komn­ar lengra að út­rýma þess­um for­dóm­um úr fót­bolt­an­um alla vega.“ Segj­ast þeir hafa verið að rifja upp hvort ein­hver knatt­spyrnumaður hafi komið út úr skápn­um á Íslandi og mundu eft­ir ein­um, sem leik­ur í neðri deild­un­um.

Minnt­ust þeir þá Just­in Fash­anu, ensks knatt­spyrnu­manns sem lék í efstu deild þar í landi og kom út úr skápn­um, en varð fyr­ir miklu aðkasti vegna kyn­hneigðar sinn­ar og framdi að lok­um sjálfs­víg.

„Við erum bara stolt­ir Þrótt­ar­ar og tök­um þátt í þessu, heils­hug­ar.“

Hressir Þróttarar fyrir gönguna í dag.
Hress­ir Þrótt­ar­ar fyr­ir göng­una í dag. mbl.is/​Víf­ill

Útför for­dóm­anna

Kirkj­unn­ar menn létu sig ekki vanta í göng­una, Æsku­lýðssam­band þjóðkirkj­unn­ar ók lík­bíl, sem táknaði for­dóm­ana sem born­ir voru til graf­ar í dag. Þeir Guðmund­ur Karl Ein­ars­son og Hjalti Jón Sverris­son, úr stjórn sam­bands­ins, segja viðveru þjóðkirkj­unn­ar í göng­unni mik­il­væga og trúa þeir á for­dóma­laus­an guð.

„Það er svo ríkt í okk­ur að elska for­dóma okk­ar, að þykja vænt um þá, því við finn­um ör­yggi í þeim. Það er ótrú­lega mennskt og eðli­legt. Þess vegna er svo gott að geta tekið þessa umræðu, án ótta.“

„Fólk er stund­um að grípa í ein­hver Biblíu­vers og lesa Bibl­í­una á bók­staf­leg­an hátt. Okk­ur sem mann­eskj­um er gefið inn­sæi og skyn­semi. Trú­ar­brögð eru eins og svo margt annað í líf­inu, skap­andi far­veg­ur og trú­ar­brögð eru ei­líf­lega í mót­un og alltaf skap­andi í eðli sínu,“ út­skýr­ir Hjalti.

„Við sjá­um það til dæm­is, sem hef­ur verið komið inn á í fræðigrein­um, að það má sjá skýr­an mun á því sem mætti kalla siðfræði Biblí­unn­ar ann­ars veg­ar og kristna siðfræði hins veg­ar. Þetta sögu­lega hef­ur ekki hald­ist í hend­ur alltaf, endi­lega. Þegar þú mæt­ir í þenn­an heim færðu það verk­efni í hend­urn­ar hvernig þú ætl­ar að lesa þenn­an heim og hvernig ætl­ar þú að taka á móti hon­um. Ég sem ein­stak­ling­ur verð alltaf að taka ábyrgð á mér og í dag ætl­um við að taka ábyrgð á okk­ur með því að fagna því að kær­leik­ur­inn lif­ir.“

Spurður hvernig vinna megi gegn for­dóm­um gegn hinseg­in fólki meðal krist­inna og annarra trú­ar­hópa seg­ir Guðmund­ur: „Ég held að opin umræða skipti öllu máli. Eins að við lát­um í okk­ur heyra þegar menn fara með rangt mál og nota jafn­vel Bibl­í­una til að berja á sam­kyn­hneigðum, sem hún nýt­ist illa í.“

Hjalti bæt­ir við að aldrei sé hægt að rétt­læta of­beldi og að það fel­ist mik­ill gald­ur í sam­ræðunni. Hana verði að eiga.

Þetta var þriðja gang­an sem Æsku­lýðssam­band þjóðkirkj­unn­ar tek­ur þátt í, en í fyrsta sinn sem bíll er hafður með í för.

„Við höf­um haft þetta slag­orð áður, það sem Jesú seg­ir um sam­kyn­hneigða, sem eru tóm­ar gæsalapp­ir. Okk­ur finnst mik­il­vægt að þjóðkirkj­an sé með í Gleðigöng­unni og þó að við séum frjáls fé­laga­sam­tök þá til­heyr­um við þjóðkirkj­unni.“

Hjalti og Guðmundur, frá Æskulýðssambandi kirkjunnar.
Hjalti og Guðmund­ur, frá Æsku­lýðssam­bandi kirkj­unn­ar. mbl.is/​Víf­ill

Mikið af BDSM-fólki inni í skápn­um

„Það er mik­il­vægt að við séum sýni­leg og berj­umst gegn for­dómi, því margt BDSM-fólk er inni í skápn­um og það er sama hræðsla og sam­kyn­hneigðir stóðu frammi fyr­ir á sín­um tíma,“ seg­ir Geir Guðmunds­son, sem gekk með BDSM á Íslandi.

Spurður hvort BDSM-fólk verði fyr­ir for­dóm­um inn­an hreyf­inga hinseg­in fólks seg­ir hann suma hrædda við að tengj­ast þeim, en BDSM hef­ur verið í umræðunni und­an­far­in miss­eri vegna inn­göngu sam­bands­ins í Sam­tök­in 78.

„Það virðist vera að sum­ir sam­kyn­hneigðir séu svona eitt­hvað hrædd­ir við að tengj­ast við okk­ur, vegna for­dóma sem eru gagn­vart BDSM í sam­fé­lag­inu. En ég held að þess­ar deil­ur Sam­tak­anna 78, um hvort eigi að veita okk­ur aðild að sam­band­inu, snú­ist meira um að sum­um inn­an sam­tak­anna finnst að verið sé að þynna fé­lagið út og að þeir eigi ekki leng­ur sitt fé­lag og finnst það svo­lít­il ógn­un að öll flór­an sé kom­in þar inn.“

„Það er ósköp skilj­an­legt. Kannski þurf­um við að hafa Sam­tök­in 78 sér og önn­ur hinseg­in sam­tök sem ná yfir allt.“

Geir hef­ur alltaf tekið þátt í gleðigöng­unni, þótt fyrst núna gangi hann und­ir for­merkj­um BDSM. Hann hef­ur þó alltaf verið í latex-klæðnaði líkt og nú og m.a. gengið með leður­homm­um. Sagði hann mikla gleði og mikið gam­an fram und­an, áður en gang­an hófst.

Geir Guðmundsson.
Geir Guðmunds­son. mbl.ís/​Víf­ill
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert