Landsvirkjun gagnrýnir rammaáætlun

Héraðsvötn fara í verndarflokk skv. endurskoðaðri lokaskýrslu um flokkun virkjunarkosta.
Héraðsvötn fara í verndarflokk skv. endurskoðaðri lokaskýrslu um flokkun virkjunarkosta. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Landsvirkjun segir aðferðina við mat á virkjunarkostum á vegum rammaáætlunar hafa augljósa galla. Hagkvæmum virkjunarkostum hafi verið hafnað en þess í stað lagt í virkjanir sem í reynd séu óhagkvæmar þegar allur kostnaður er talinn með.

Þetta kemur fram í umsögn fyrirtækisins við endurskoðaða lokaskýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar þar sem gerðar eru tillögur um flokkun 26 virkjunarkosta og landsvæða. Í umsögninni bendir Landsvirkjun á að með aðferðafræði rammaáætlunar séu margs konar áhrif af virkjunum lögð saman. 

Bendir Landsvirkjun á að þeir þættir sem meta þurfi í sambandi við sjálfbæra þróun séu umhverfi, samfélag og efnahagur. Aflað hafi verið gagna um náttúru og menningarminjar og ferðaþjónustu, beit og veiði en ekki hefur tekist að afla nægilegra gagna um samfélagslega þætti og efnahagsleg áhrif. Ljúka þarf því þeim verkefnum áður en endanleg tillaga er lögð fram.

Undir gagnrýnina taka Samorka og Orkustofnun sem telja mat á virkjunarkostum byggja á of þröngu sjónarhorni. Ótímabært sé að setja fram drög að flokkun virkjanakosta án þess að tekið sé tillit til samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa orkunýtingar.

„Vægið ræðst af mati á mikilvægi hvers þáttar, en matið verður seint einhlítt. Fram kemur í lögum um rammaáætlun frá 2011 að löggjafinn ætlast til þess að umhverfisáhrif virkjana séu metin til fjár, en það hefur ekki gengið eftir. Þá hlýtur matið að vera bjagað þegar efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum er sleppt að stórum hluta,“ segir í umsögninni.

Þá segir Landsvirkjun að samræmi þurfi að vera milli flokkunar virkjunarkosta og afmörkunar landsvæða. „Tillögur um afmörkun landsvæða þarf að undirbyggja og rökstyðja mun betur út frá einstökum virkjunarkostum. Ekki er heimilt að setja heil vatnasvið í verndarflokk án þess að farið sé að lögum um verklag og málsmeðferð við flokkun virkjunarkosta,“ segir í umsögn Landsvirkjunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka