Grásleppuskúrarnir við Grímsstaðavör við Ægisíðu hafa um langa hríð verið í mikilli niðurníðslu og lítið sem ekkert hefur verið gert til þess að halda þessum menningarverðmætum við. Mikil umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er um göngu- og hjólreiðastíginn sem liggur meðfram Ægisíðu, og hafa ýmsir lýst furðu sinni á því hversu borgaryfirvöld virðast treg til að ráðast í nauðsynlegar umbætur.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fluttu í fyrrasumar tillögu í borgarráði, sem var svohljóðandi: ,,Borgarráð samþykkir að ráðist verði í úrbætur vegna varðveislu menningarminja við Grímsstaðavör. Fyrir næsta vetur verði ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við að verja minjarnar gegn frekara tjóni, sérstaklega þann skúr sem er að hruni kominn og hætta gæti stafað af.“
Í umsögn menningar- og fræðslusviðs Reykjavíkurborgar um tillöguna frá því í júlí í fyrra segir m.a.: „Grásleppuskúrarnir og umhverfi þeirra er hins vegar í mikilli niðurníðslu. Leitað var til Borgarsögusafns sem telur mikilvægt að vernda menningarminjarnar við Grímsstaðavör og mun því senda smiði á staðinn til að framfylgja tillögum um nauðsynlega varðveislu þeirra, fyrir vetrarbyrjun 2015...
Ekkert fjármagn er hins vegar í ramma menningar- og ferðamálasviðs árið 2015 vegna minjanna og engar viðbætur í úthlutuðum ramma vegna 2016. Því verður lítt hægt að sinna fyrirliggjandi verkefnum nema viðbótarfjármagn komi til.“ Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.