Hreiðar Már kærir héraðssaksóknara

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. Ómar Óskarsson

Fyrr á þessu ári lagði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, fram kæru á hendur embætti sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara. Óskað var eftir rannsókn á að gögn sem lutu að sakarefni í Chesterfield-málinu, sem einnig er þekkt sem CLN-málið, hafi ekki ratað í gögn málsins. Þetta staðfestir Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars, í samtali við mbl.is, en sagt var frá málinu í kvöldfréttum RÚV. 

Frétt mbl.is: Fá aðgang að tölvupóstum

Frétt mbl.is: Grundvallaratriði ekki gefinn gaumur

Aðalmeðferð í Chesterfield-málinu fór fram í desember á síðasta ári. Í málinu voru ákærðir ásamt Hreiðari þeir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, og Magnús Guðmundsson sem stjórnaði Kaupþingi í Lúxemborg. Í héraðsdómi voru þrímenningarnir sýknaðir af öllum ákærum, en héraðssaksóknari áfrýjaði málinu í byrjun þessa árs til Hæstaréttar.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ákæran í málinu hafi byggst á að lán hafi verið veitt án trygginga. „Ekki er að sjá að þessu mik­il­væga atriði hafi verið gef­inn sér­stak­ur gaum­ur í rann­sókn máls­ins,“ segir í dómsniðurstöðu málsins sem var nokkuð afgerandi ákærðu í vil.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.

Gögnin skiptu miklu máli upp á sýknu

Hörður segir við mbl.is að kæran hafi verið lögð fram í vor og enn hafi engin viðbrögð borist frá ríkissaksóknara. Segir hann að málinu hafi verið fylgt eftir með frekari gögnum þegar héraðssaksóknari kærði málið til Hæstaréttar fyrr á árinu. Þá hafi komið í ljós að ákæruvaldið hafi haldið eftir frekari gögnum sem svo hafi þótt merkileg þegar kom að áfrýjuninni.

Hörður segir að í grunninn gangi málið út á að í málinu og öðrum málum sérstaks saksóknara og síðar héraðssaksóknara í svokölluðum hrunmálum hafi ákærðu ekki fengið aðgang að öllum gögnum nema þeim sem embættið taldi sjálft mikilvægt og lagði fram. Segir hann að í Chesterfield-málinu hafi ákærðu svo fengið takmarkaðan aðgang að tölvupóstum tveggja viðskiptastjóra bankans eftir úrskurð héraðsdóms.

Þessi gögn segir Hörður að hafi svo skipt miklu máli og sýkna héraðsdóms meðal annars byggst á þeim. „Þetta vekur spurningar um hvernig staðan er í hinum málunum sem við fengum engan aðgang að gögnum í,“ segir Hörður.

Tengist kæru til Mannréttindadómstólsins

Hreiðar Már hefur verið ákærður fjórum sinnum af embætti sérstaks saksóknara (héraðssaksóknara). Í þrjú skipti var hann fundinn sekur, en það voru Al-thani málið, Marple-málið og markaðsmisnotkunarmál Kaupþings. Eins og fyrr segir var hann sýknaður í Chesterfield-málinu.

Eftir Al-thani málið sendi Hreiðar Már ásamt öðrum ákærðu málið til Mannréttindadómstólsins sem ákvað að senda fyrirspurn til ríkisins vegna þess. Beðið er eftir því hvort dómstóllinn taki málið formlega fyrir. Segir Hörður að þessi skortur á aðgengi að gögnum sé eitt þeirra atriða sem kært hafi verið til Mannréttindadómstólsins.

Segir Hörður þessa aðferð saksóknara í engu samræmi við mannréttindi og rétt sakborninga. „Þess vegna hef ég verið óþreytandi á að hamra á þessu, bæði skriflega og munnlega, en með mjög takmörkuðum árangri hingað til,“ segir hann.

Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum.
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Grundvallaratriði í sakamálarétti almennt

Bendir Hörður á að saksóknarar séu bundnir af hlutlægnisskyldu og að setja öll gögn inn í mál sem geti haft áhrif á niðurstöðu þess, hvort sem það komi ákærða vel eða illa. Segir hann þetta algjört grundvallaratriði í rekstri þessara mála og sakamálarétti almennt.

Hörður segir illskiljanlegt hvernig saksóknari hafi getað misst af þessum tölvupóstum sem komu að lokum inn í málið og bendir á að það hafi aðeins tekið verjendur í málinu nokkrar klukkustundir að finna þau þegar þeir fengu gögnin í hendur. Saksóknari hafi aftur á móti haft málið til skoðunar í nokkur ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert