Ný stikla úr Eiðinum komin út

Ný stikla úr spennumyndinni Eiðurinn í leikstjórn Baltasars Kormáks er komin út. Myndin verður frumsýnd á Íslandi 9. september og á kvikmyndahátíðinn í Toronto sömu helgi.

Þetta er í áttunda sinn sem verk eftir Baltasar er valið inn á hátíðina, sem er ein hinna stóru svonefndu A-hátíða.

Eiðurinn verður sýndur í flokki Special Presentations og verður frumsýndur í aðalkvikmyndahúsi hátíðarinnar og á besta sýningartíma. Í þessum flokki eru athyglisverðar myndir sýndar frá leiðandi kvikmyndagerðarmönnum í heiminum.

Frétt mbl.is: Eiðurinn frumsýndur á kvikmyndahátíð í Toronto

Plakat myndarinnar.
Plakat myndarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar að koma dótturinni á réttan kjöl

Auk þess að leikstýra og framleiða leikur Baltasar aðalhlutverkið. Myndin segir frá hjartaskurðlækninum Finni sem þykir skara fram úr í starfi sínu. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyld­unni sem nýja kærastann koma fram brestir í einkalífinu. Finnur ákveður að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.

Hera Hilmarsdóttir leikur dótturina Önnu og Gísli Örn Garðarsson er í hlutverki kærastans.

Handritið er byggt á upprunalegri sögu Ólafs Egils Egilssonar en er skrifað af þeim Ólafi og Baltasar.

RVK Studios framleiðir myndina í samstarfi við Film4 í Bretlandi og ZDF í Þýskalandi. Framleiðendur eru þeir Baltasar Kormákur og Magnús Viðar Sigurðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka