Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, segir enga ástæðu fyrir sig að bregðast við frásögnum af Geirfinnsmálinu í Hyldýpi Ómars Ragnarssonar eða óútkominni bók Jóns Daníelssonar, á þessu stigi.
„Fyrir það fyrsta þá er ég ekki búinn að lesa þessar bækur og önnur þeirra er raunar ekki komin út og síðan er það á hendi endurupptökunefndar að fela mér að rannsaka vísbendingar sem hafa komið fram,“ segir Davíð Þór. „Það er ekkert tilefni fyrir mig að bregðast við á þessu stigi.“
Davíð Þór kveðst hafa fylgst með frásögnum fjölmiðla af bókunum. „Ef endurupptökunefnd felur mér að rannsaka einhver atriði, m.a. vegna þess sem fram kemur í þessum bókum þá mun ég gera það, en þangað til held ég að mér höndum.“
Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um eitt og annað tengt Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og hefur Davíð Þór verið að rannsaka eina þeirra, sem tengist yfirheyrslum yfir þeim Stefáni Almarssyni og Þórði Jóhanni Eyþórssyni sem voru handteknir og yfirheyrðir í júní vegna ábendingar sem barst lögreglu.
„Það er svona um það bil verið að ljúka þeirri rannsókn og ég mun senda endurupptökunefnd á næstunni upplýsingar um hverju það hefur skilað.“
Áður hefur verið greint frá því að búist er við að endurupptökunefnd komist að niðurstöðu um hvort Guðmundar- og Geirfinnsmálið verði tekið upp á nýjan leik í október eða nóvember. Davíð Þór bendir þó á að það kunni að dragast, ef rannsaka þurfi fleiri vísbendingar vegna málsins.