Sumarið er „alls ekki búið“

Úrkomuspá klukkan 8 í fyrramálið. Búast má við mikilli vætu …
Úrkomuspá klukkan 8 í fyrramálið. Búast má við mikilli vætu yfir landinu næstu daga, en Teitur segir það ekki merki um að sumarið sé búið. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Allt tal um að sumarið sé búið er algjörlega ótímabært. Það er alls ekki búið – ágúst er klárlega sumarmánuður,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, þegar blaðamaður spyr hann hvort kaldara loft og skortur á sólargeislum sé merki um að sumarið sé að klárast.

„Það getur verið að það séu viðbrigði fyrir fólk að fá vætu og sjá ekki sólina eins mikið og hefur verið. En þótt það komi rigning þýðir það ekki að sumarið sé búið,“ segir hann.

Þungbúið veður í vikunni

Von er á þungbúnu veðri og mikilli vætu í vikunni, en að sögn Teits er þó að koma hlýtt loft yfir landið. „Þetta er mjög sumarleg lægð að því leyti að vindurinn í henni nær sér ekkert á strik. Þetta er í mesta lagi strekkingur en ef þetta væri haustlægð værum við að tala um storm,“ segir hann og bætir við að í vikunni muni vindur hugsanlega gægjast rétt upp fyrir 10 metra á sekúndu.

Að sögn Teits er um mjög rakaþrungið loft að ræða, og má gera ráð fyrir þungbúnum degi á morgun. „Þetta er meiri rigning en í sumarlægðum og hún verður sunnan- og vestanlands í kvöld og nótt en færir sig svo yfir í aðra landshluta.“

Úrkomuspá 10.–16. ágúst:

Lægðin sem kemur með þetta hlýja en raka loft mun setjast yfir landið og hanga hér eitthvað áfram að sögn Teits. „Það verður frekar þungbúið á fimmtudag og föstudag en svo rofar aðeins til um helgina svo það verður meinlaust veður. Á sunnudag og mánudag kemur svo væntanlega önnur gusa af hlýju lofti úr sunnanátt.“

Í kjölfarið megi gera ráð fyrir rigningu, sérstaklega sunnanmegin á landinu og jafnvel sé útlit fyrir mikla rigningu á Suðausturlandi. „Hins vegar gerir spáin ráð fyrir að það hegði sér öðruvísi,“ segir Teitur. „Þá komi sunnanátt sem blæs yfir allt landið og þegar mesta úrkoman er búin að skila sér taki við sunnanáttarkafli þar sem getur orðið mjög hlýtt og jafnvel sólríkt fyrir norðan í næstu viku. Sem hefur svolítið vantað í sumar.“

Vindaspá 10.–16. ágúst:

Teitur segir sumarið hingað til hafa í grófum dráttum verið þannig að veður hafi batnað mikið á landinu seint í maí og við hafi tekið þurr og bjartur kafli í þrjár vikur, eða langt fram í júní. Síðan þá hafi legið í austan- og norðaustanáttum sem þýði að það sé þungbúnara og blautara fyrir norðan og austan en hvað þurrast og sólríkast á Suður- og Vesturlandi.

„Það hafa samt ekki verið jafnhreinar línur og í fyrrasumar. Þá var með eindæmum þrálátt hvað það var þungbúið fyrir norðan og austan. Þetta hefur ekki verið eins og þá, þar sem það hafa alveg komið góðir dagar inn á milli.“

Besta veðrið í sumar hafi verið frá því í lok júní og nánast allan júlí á Suður- og Vesturlandi. „En við höfum ekki enn náð 25 stiga hita. Það hefur raunar ekki gerst síðan 2013 en við vonum nú að það verði ekki enn eitt sumarið sem líður án þess. Það getur alveg gerst enn þá,“ segir Teitur og bendir á að í fyrra hafi mesti hitinn mælst í september.

Rigningin sem gera má ráð fyrir á næstu dögum sé hins vegar ekki svo slæm, sérstaklega fyrir gróðurinn. „Það er ekki nógu gott að hafa alltaf sól og þurrk. Þetta þarf allt að vera í bland,“ segir Teitur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert