Bilun kom upp við uppfærslu

Bilun kom upp við uppfærslu upplýsingakerfis flugstöðvarinnar í hádeginu.
Bilun kom upp við uppfærslu upplýsingakerfis flugstöðvarinnar í hádeginu. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Upplýsingakerfi flugstöðvarinnar í Keflavík datt út í 15 mínútur um kl. 13 í dag, með þeim afleiðingum að engar upplýsingar var að finna á upplýsingaskjám í brottfarar- og komusölum, þ.á m. við farangursbönd flugstöðvarinnar.

Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, kom upp bilun við uppfærslu kerfisins en málum var kippt í liðinn á fáeinum mínútum.

Borið hefur á því undanfarna daga og vikur að farþegar hafa þurft að bíða nokkuð eftir farangri sínum, en nýtt farangurskerfi var tekið í notkun í sumar. Að sögn Guðna er unnið að því að útfæra nýtt verklag en gríðarleg fjölgun farþega hefur reynst verðug áskorun.

Þess ber að geta að bilunin í morgun tengdist ekki innleiðingu nýja kerfisins.

Júlí og ágúst eru annasömustu mánuðir ársins á Keflavíkurflugvelli og fjölgun farþega slík milli ára að nú fara 32.000-34.000 farþegar um flugstöðina á dag, þegar mest lætur, en í fyrra töldu stærstu dagarnir 23.000 farþega.

Í hámarksafköstum lenda 20 vélar á Keflavíkurflugvelli á klukkustund og til að nefna annað dæmi um þróun farþegafjölda, er nærtækast að benda á að nýjar breiðþotur íslensku flugfélaganna taka allt að 150 fleiri farþega en gömlu þoturnar.

Allt þetta kallar á aðlögun, að sögn Guðna.

„Við fórum í gegnum þetta í öryggisleitinni í fyrra,“ segir hann en á þeim tíma voru farnar að myndast raðir í leitinni sem menn gátu ekki sætt sig við.

„Við bættum mjög í mannskapinn og fórum yfir alla ferla, bættum búnað og núna eru 95% [farþega] að bíða innan við fimm mínútur, þrátt fyrir gríðarlega farþegafjölgun,“ segir Guðni. „Við gerum okkar besta í að fara í gegnum þetta og reynum að gera það eins hratt og mögulegt er. Það eru allir að vinna að því að veita farþegum sem besta þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert