Mikið af slýi er í Mývatni. Það flýtur upp og sést á stóru svæði í Ytriflóa og hjúpar annan gróður. Minnast náttúrufræðingar þess ekki að hafa séð slíkt áður, samkvæmt upplýsingum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar, segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag að eftir sé að athuga hvers vegna svona mikið slý myndast í vatninu og of snemmt að segja til um áhrif þess á lífríkið og tengsl við neikvæðar breytingar á lífríki vatnsins síðustu ár.
„Við vitum ekki hvaða lífverur eru í slýinu, hvort eitthvað þrífst í því. Það eina sem er öruggt er að það kæfir þann gróður sem það leggst yfir,“ segir Árni. Mest af slýinu situr á botni vatnsins en þegar það er mikið flýtur hluti þess upp.
Vel hefur viðrað til að skoða bakteríublómann í Mývatni að undanförnu. Mikill blómi er í norðurhluta vatnsins, sérstaklega Ytriflóa, og nær hann góðan spöl inn í Syðriflóa. Svæði í Ytriflóa er nú mjólkurhvítt.