Sátt um málið orðum aukin

Kristján L. Möller.
Kristján L. Möller. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki lokið umræðu um þetta mál. Það er því orðum ofaukið að okkar samþykki liggi fyrir,“ segir Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi flokksins í atvinnuveganefnd Alþingis.

Vísar hann þar til fréttar í Morgunblaðinu í dag þar sem haft var eftir Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og formanni nefndarinnar, að sátt væri á meðal allra flokka um tillögur sem lagðar hefðu verið fram um breytingar á nýjum búvörusamningi að Bjartri framtíð undanskilinni.

Kristján segir að hann hafi verið boðaður á fund síðstliðinn mánudag með Jóni og Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og framsögumanni málsins. Þar hafi honum verið kynntar tillögur að breytingum á búvörusamningnum. 

Honum hafi verið afhent gögnin og tekið fram að um væri að ræða trúnaðargögn.  Hann hafi farið með þau á þingflokksfund Samfylkingarinnar sama dag en ekki hafi reynst nægur tími til þess að fara í gegnum þau. Þeirri athugun er ekki lokið.

Kristján segir að þar sem umrædd gögn hafi ekki verið lögð formlega fram í atvinnuveganefnd líti hann svo á að enn ríki trúnaður um þau. Hann hafi því ekki viljað tjá sig um þau opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert