Íbúum í Borgartúninu fjölgaði um að minnsta kosti einn í nótt þegar tjaldi var slegið upp við hlið aðalútibús Arion banka. Vegfarandi sendi mbl.is myndir af tjaldinu en sagðist ekki hafa orðið var við íbúann í morgunsárið, að minnsta kosti ekki enn.
Trén sem standa á miðju grasinu hafa eflaust veitt skjól fyrir golu í nótt og ljóst er að stutt er í margvíslega þjónustu, meðal annars í bankann.
Uppfært kl. 10:20: Samkvæmt upplýsingum mbl.is var um tvo ferðamenn að ræða sem tjölduðu á lóð Reykjavíkurborgar við hlið bankans í Borgartúninu í nótt. Þeir tóku saman föggur sínar á ellefta tímanum í morgun og héldu brott.