Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir ríkisstjórnina ætla að kynna ný úrræði í húsnæðislánum eftir helgi.
Þar verður boðið upp á hvata til að taka óverðtryggð lán. „Annars vegar hyggjumst við með þessu koma myndarlega til móts við fyrstu kaupendur að fasteign og hins vegar taka mjög stór skref inn í breytingar á lánaformi sem mönnum mun bjóðast við íbúðakaup,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut.
„Við erum að taka stór skref í anda tillagna sérfræðinga,“ bætti hann við.
Spurður út í skuldaleiðréttinguna og lægri vaxtabætur sagði Sigurður Ingi: „Er betra að vera svakalega skuldsettur og fá háar vaxtabætur eða er betra að hafa fengið skuldaleiðréttingu og eignast meiri hlut í sinni eign?“
„Ein af ástæðunum fyrir lægri vaxtabótum er vegna þess að tekjur hafa aukist og einnig vegna þess að fólk á meiri hlut í húsnæði sínu og borgar lægri vexti til bankans. Kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á síðustu tveimur árum sem er fáheyrt í hinum vestræna heimi."
Sigurður Ingi sagði jafnframt að skattalækkanir á næstu árum séu fráleitar. „Til þess að viðhalda stöðugleika getur ríkisvaldið ekki aukið á þensluna með stórfelldum skattalækkunum.“