Leggjast gegn lengingu fæðingarorlofs

Miðað er við að há­marks­greiðsla í fæðingar­or­lofi hækki úr 370.000 …
Miðað er við að há­marks­greiðsla í fæðingar­or­lofi hækki úr 370.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. á mánuði. mbl.is/Ásdís

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist styðja áform stjórnvalda um að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi. Hins vegar sé ekki skynsamlegt að lengja fæðingarorlofið.

Hann sagði í kvöldfréttum RÚV að fæðingarorlofið hefði verið skert of mikið á árunum 2009 og 2010. „Þess vegna teljum við mjög brýnt að hækka greiðslurnar að nýju. Þarna er sett fram tillaga um hámarksgreiðslu upp á 600 þúsund og þá tillögu styðjum við,“ sagði hann.

Eygló Harðardóttir, fé­lags- og hús­næðismálaráðherra, lagði á föstudag fram til um­sagn­ar drög að frum­varpi til breyt­inga á lög­um um fæðing­ar- og for­eldra­or­lof sem áformað er að leggja fyr­ir komandi þing. Helstu breyt­ing­arn­ar eru að óskert­ar viðmiðun­ar­tekj­ur verði 300 þúsund krón­ur, há­marks­greiðslur í fæðing­ar­or­lofi hækki um 62% og að fæðing­ar­or­lofið verði lengt í áföng­um úr níu mánuðum í tólf.

Frétt mbl.is: Hámarksgreiðslur verða 600 þúsund

Efni frumvarpsins byggist á tillögum starfs­hóps sem ráðherra skipaði í lok árs 2014 til að móta framtíðar­stefnu stjórn­valda í fæðing­ar­or­lofs­mál­um.

Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með tryggingagjaldi og á það sama við um atvinnuleysistryggingasjóð. Haft var eftir Eygló í fréttum í gær að svigrúm væri til þess að breyta lögum um fæðingarorlof vegna þess að barnsfæðingum hefði fækkað verulega og atvinnuleysi minnkað og þá væri verulegur afgangur í atvinnuleysistryggingasjóði.

Þorsteinn sagði hins vegar að litið hafi verið á sjóðina sem tvo aðskilda hluti. Annars vegar réttinn til atvinnuleysisbóta og hins vegar til fæðingarorlofs.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Ómar

Verulegt svigrúm væri nú til þess að lækka atvinnuleysistryggingagjaldið, en ekki væri skynsamlegt að beina því í aðra fjármögnun hjá ríkissjóði.

„Þetta hefur verið mjög mikilvægt og um það hefur ríkt sátt fram á síðustu ár að atvinnuleysistryggingagjaldið á eingöngu að fjármagna atvinnuleysi og ekkert annað,“ sagði Þorsteinn.

Dugir ekki fyrir lengingu

Í frétt RÚV kom fram að aðilar vinnumarkaðarins hefðu komið sér saman um að tæp 1,3% af tryggingagjaldinu rynni til fæðingarorlofs.

„Það dugir hæglega til þess að hækka hámarksgreiðslurnar að nýju en það dugir ekki fyrir lengingu fæðingarorlofs,“ sagði Þorsteinn.

Ekki væri skynsamlegt að lengja fæðingarorlofið án þess að vitað væri hvernig stjórnvöld ætluðu að fjármagna lenginguna án þess að kæmi úr öðrum þáttum tryggingagjaldsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert