Boðað hefur verið til friðsamlegs samstöðufundar með flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi á Austurvelli á morgun, mánudag, klukkan 15, þegar þing kemur saman eftir sumarfrí.
Samstöðufundurinn hefur verið auglýstur á Facebook en þar hafa hundruð manna boðað komu sína.
Í fréttatilkynningu frá Semu Erlu Serdar, einum aðstandenda samstöðufundarins, segir að bæta þurfi kerfið sem heldur utan um málefni útlendinga, flóttafólks og hælisleitenda. Það þurfi fyrst og fremst að hafa mannúð og réttlæti að leiðarljósi. Nýju útlendingalögin séu skref í þá átt.
„Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en nú. Um er að ræða milljónir manna sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað.
Ísland hefur meðal annars lögfest mannréttindasáttmála Evrópu, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur því skuldbundið sig til þátttöku í alþjóðlegum friðar- og mannúðarverkefnum. Íslensk stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum svo hægt sé að taka á þeim áskorunum sem fylgja auknum straumi flóttafólks sem er ekki mál einstakra ríkja eða einstaklinga heldur mannúðarmál sem snertir okkur öll.
Mikilvægt er að þeir sem eru á flótta haldi mannlegri reisn og virðingu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Bent er á að Íslenska þjóðfylkingin, sem er nýstofnaður stjórnmálaflokkur, hafi sagst ætla að afnema nýju útlendingalögin, komist hún til valda. Hefur flokkurinn boðað til þögulla mótmæla fyrir framan Alþingi á morgun klukkan 15, þegar þing kemur saman eftir frí, einmitt vegna nýju útlendingalaganna.
„Af því tilefni boðum við til friðsamlegs samstöðufundar með flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi á Austurvelli á morgun, mánudaginn 15. ágúst, kl. 15.
Við erum öll fyrst og fremst fólk og eigum öll skilið sömu virðingu, réttlæti og réttindi. Mætum og sýnum samstöðu með flóttamönnum og hælisleitendum úti um allan heim!“ segir í tilkynningunni.