Fyrir flesta sem notfæra sér boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að gera fasteignakaup auðveldari og afborganir léttari fyrir nýja kaupendur á fasteignamarkaði er skattalegt hagræði og framlag launagreiðanda ígildi 3% launahækkunar í tíu ár. Þá getur par greitt allt að tíu milljónir króna af skattfrjálsum séreignarsparnaði inn á fasteignalán á tíu árum.
Fyrri frétt mbl.is: Skiptir sköpum fyrir ungt fólk
Nýtt frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um stuðning við kaup á fyrstu íbúð var kynnt á blaðamannafundi í Hörpu í dag en ríkisstjórnin samþykkt það á fundi sínum í morgun. Verði frumvarpið samþykkt er gert ráð fyrir því að um fjórtán þúsund manns muni notfæra sér þetta nýja fyrirkomulag á fyrstu árum þess.
Frumvarpið byggir á nýtingu skattfrjáls séreignarsparnaðar til öflunar fyrstu fasteignar til að lækka höfuðstól og afborganir, óháð lánsformi. Tilgangurinn er að auðvelda fyrstu kaup á fasteignamarkaði og auka húsnæðissparnað.
Áður en þetta nýja úrræði, sem ber nafnið Fyrsta fasteign, var kynnt, hélt Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra stutta ræðu þar sem hann sagði það von sína og trú að úrræðið myndi nýtast þúsundum Íslendinga. Þá sagðist hann vona að stjórnarandstaðan myndi kjósa með frumvarpinu og sagði það skipta sköpum fyrir yngri kynslóðina. Sagði hann Fyrstu fasteign jafnframt rökrétt framhald af leiðréttingunni þar sem sjónum væri beint að unga fólkinu sem væri að stofna heimili.
Fyrsta fasteign nær til allra íslenskra launþega sem ekki eiga fasteign en tilgangurinn er að auka og hvetja til húsnæðissparnaðar og auðvelda fyrstu kaup. Úrræðið er varanlegt og hægt er að nota það einu sinni á ævinni til kaupa fyrstu fasteignar.
Í frumvarpinu er kveðið á um þrjár leiðir sem rétthafi getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi. Þær eru heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð, heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, yfir tíu ára samfellt tímabil og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess.
Úrræðið er varanlegt en hámarkstími er samfellt tíu ára tímabil fyrir hvern einstakling. Greiðslur hvers einstaklings inn á séreignarsparnað geta numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili, samtals 10 milljónir fyrir par. Fyrir þá sem ekki eru þegar með séreignarsparnað getur sú ákvörðun að leggja fyrir og nýta sparnað til húsnæðiskaupa samsvarað um 3% launahækkun í 10 ár vegna skattalegs hagræðis og mótframlags launagreiðanda.
Heildarumfang aðgerðanna er um 50 milljarðar króna sem fara í beinar inngreiðslur á íbúðalán af séreignarsparnaði næsta áratuginn.
Hægt er að sjá kynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á frumvarpinu í heild sinni hér.