Færir ástandið til eðlilegs horfs

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundinum þar sem frumvarpið var kynnt.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundinum þar sem frumvarpið var kynnt. mbl.is/Golli

Skrefið sem stigið verður með nýju frumvarpi um frekari losun hafta færir ástandið aftur til eðlilegs horfs. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann segir breytingarnar ekki verða miklar fyrir hina venjulegu fjölskyldu enda hafi vöru- og þjónustuviðskipti verið frjáls þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

Hann segir þó að fjölskyldur í landinu komi til með að finna fyrir áhrifunum að því marki sem þær hafa rekið sig á höftin, s.s. þegar millifært er innan fjölskyldna á milli landa, á ferðalögum eða vegna kaupa á orlofshúsum erlendis. „Hér er verulega verið að rýmka heimildir fyrir fjölskyldur á sama tíma og önnur stór skref eru stigin fyrir atvinnulífið,“ segir hann.

Á kynningunni í kvöld kom fram að heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar verði auknar svo hann geti stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika í samræmi við hlutverk hans. Spurður út í þessar heimildir segir Bjarni það vera sjálfsagðan hlut að þingið fari vel ofan í heimildir Seðlabankans líkt og annarra eftirlitsaðila almennt. 

„En þarna er tilgangurinn að við höfum yfirsýn yfir gjaldeyrisáhættuna,“ segir Bjarni og bætir við að fyrir fjármálahrunið 2008 hafi gjaldeyrisáhætta landsins ekki verið nægilega skýr og með auknum heimildum Seðlabankans sé verið að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.

Um stjórntækin sem Seðlabankinn hefur til að draga úr frjálsu fjármagnsinnflæði til landsins sagði Bjarni að það beri að líta á stjórntækin sem þjóðhagsvarúðartæki frekar en höft fyrir eðlilega fjármagnsinnflutninga. Standi vilji til að draga úr sveiflum í hagkerfinu þurfi að treysta á slík tæki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert