Foreldrar greiði ekki fyrir ritföng og pappír

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram frumvarp að breytingum á grunnskólalögum þess efnis að felldur verði út málsliður þar sem fram kemur að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.

Minnt er á í greinargerð með frumvarpinu að í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur hafi verið hér á landi, komi fram að öll börn eigi rétt á grunnmenntun án endurgjalds. Enn fremur að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags. Ljóst sé að brotið sé gegn þessu í íslensku grunnskólalögunum.

„Ljóst er að foreldrar hafa afar mismunandi fjárhagslega burði til að standa straum af þeim kostnaði sem opinberum aðilum er heimilt að undanskilja því sem þeir skulu veita að kostnaðarlausu. Þá er ljóst að ákvæðið brýtur gegn 28. gr. sáttmálans þar sem foreldrar þurfa í reynd að greiða hluta af grunnmenntun barna sinna,“ segir enn fremur.

Mikilvægt sé að tryggja öllum börnum rétt til grunnmenntunar án endurgjalds. Markmið frumvarpsins sé að taka af öll tvímæli um að gjaldtaka sé óheimil. „Lagt er til að tekið verði alfarið fyrir alla gjaldtöku á námsgögnum nemenda, þ.m.t. á ritföngum og pappír. Slík gögn verður að telja með námsgögnum því án þeirra geta nemendur ekki stundað nám sitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert