Ungt fólk, tekjulágir og þeir sem taka lán með lágt veðsetningarhlutfall munu áfram geta tekið verðtryggð jafngreiðslulán til fjörutíu ára, svokölluð Íslandslán, verði frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, að lögum. Óheimilt verður að veita öðrum slík lán.
Frumvarpið var birt á vef Alþingis í gærkvöldi. Í greinargerð með frumvarpinu segir að rökin fyrir þeim breytingum sem þar eru lagðar til felist fyrst og fremst í þeim ókostum Íslandslána að verðbótum er velt á höfuðstól lánsins og greiðslum þeirra frestað. Með þessu verði eignamyndun hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukist. Er jafnframt fullyrt að neytendur séu ekki nægilega meðvitaðir um þá áhættu sem verðtryggð jafngreiðslulán bera með sér.
Með frumvarpinu eru eingöngu settar takmarkanir á veitingu nýrra lána, en ekki yfirtöku á eldri lánum. Eins eru ekki settar skorður við veitingu verðtryggðra lána með jöfnum afborgunum, heldur aðeins jafngreiðslum.
Frétt mbl.is: Verðtryggingin ekki afnumin
Meginreglan verður sú að Íslandslán verða bönnuð, en þó verður heimilt að veita slík verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára sé eitt af eftirtöldum skilyrðum uppfyllt:
Í greinargerðinni segir að þessar undanþágur séu veittar í því skyni að auka ekki greiðslubyrði ungs og tekjulágs fólks. Greiningar bendi til að það muni eiga í erfiðleikum með að standa undir þeirri auknu greiðslubyrði sem af styttri verðtryggðum lánum eða óverðtryggðum lánum hlýst. Auk þess þyki ekki ástæða til þess að standa gegn verðtryggðum langtímajafngreiðslulánum ef veðsetningarhlutfallið er lágt.
Við mat á áhrifum frumvarpsins á lántaka var miðað við árið 2015. Þá námu verðtryggð íbúðalán innlánsstofnana um sjötíu milljörðum króna og verðtryggð lán lífeyrissjóða um tuttugu milljörðum, þ.e. samtals um níutíu milljörðum. Af þessum níutíu milljörðum eru um það bil sjötíu milljarðar Íslandslán.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um aldur lántaka við töku íbúðalána, veðsetningarhlutfall og tekjur má gera ráð fyrir að um 30–50% lántakenda falli undir undanþágu frumvarpsins um aldur, 5–10% vegna tekna og 5–15% vegna veðsetningar. Miðað við lánveitingar í fyrra má gera ráð fyrir að um tuttugu til þrjátíu milljarðar króna af nýjum veittum lánum hefðu á því ári fallið undir ákvæði frumvarpsins eða um 1.000 til 1.500 manns.