Notendur Strætó gátu hvorki notað snjallforrit fyrirtækisins til að kaupa miða og fá aðgang að kortum né keypt miða á netinu vegna bilunar hjá Advania, sem annast þjónustuna, í morgun. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir þjónustuna hafa legið niðri í um klukkutíma en farþegar hafi fengið frítt á meðan.
Bilunin gerði vart við sig um klukkan 8:20 í morgun. Margir notendur Strætó eru með kort sín í snjallforritinu en einnig er hægt að kaupa staka miða í því. Meðan á biluninni stóð var því hvorki hægt að fá aðgang að kortunum né kaupa miða.
„Við kölluðum strax út í talstöðina um vandamálið og að það ætti að veita fólki frítt í vagnana,“ segir Jóhannes Svavar.
Kerfin eru komin aftur í gang en framkvæmdastjórinn segir þetta í fyrsta skipti sem Strætóappið detti út í svo langan tíma, svo lengi sem hann muni eftir.
Samkvæmt upplýsingum frá Advania duttu kerfi Strætó út eftir minni háttar vandamál sem komu upp eftir uppfærslu á eldvegg hjá fyrirtækinu í nótt. Við lagfæringu á þeirri villu hafi komið upp flóknari villa sem olli því að kerfið datt út. Við henni hafi verið brugðist og kerfið hafi verið að fullu lagfært.