Atvinnuveganefnd Alþingis hefur ekki lokið við nefndarálit sitt og breytingartillögur fyrir 2. umræðu um frumvarp til breytinga á búvörulögum sem felur í sér staðfestingu á nýjum búvörusamningi ríkis og bænda og fleiri atriðum.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, að reynt sé að ná sem víðtækastri sátt í nefndinni og meðal hagsmunaaðila um málið.
„Ég bíð eftir því að sjá betur á spilin hjá atvinnuveganefnd. Ég hef fengið kynningu á nokkrum þáttum málsins og rætt við mitt fólk. En útfærslan skiptir máli og við metum það þegar við sjáum betur á spilin hvort okkur finnst of langt gengið,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.