Ekki stendur til að keyra nýjasta frumvarpið við afnám gjaldeyrishafta í gegnum þingið með „trukki“ líkt og fyrri tvö frumvörpin að sögn Bjarna Benediktssonar. Hann segir ekki þörf á því í þetta sinn og því verði gefinn tími fyrir þinglega meðferð. Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á heimildir aflandskrónueigenda að því er fram kom á kynningunni í kvöld.
Líkt og frumvarpið var kynnt á blaðamannafundi í kvöld tekur það gildi í tveimur áföngum. Annars vegar við gildistöku þess sem vænta má að verði þegar það verður samþykkt á Alþingi og síðan aftur 1. janúar.
Við gildistöku mun bein erlend fjárfesting innlendra aðila verða ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þá mun fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána verða frjáls að ákveðnu fjárhæðarmarki.
Einstaklingum verður heimilað að kaupa eina fasteign á ári erlendis óháð tilefni og kaupverði. Heimildir einstaklinga til kaupa á ferðagjaldeyri verða rýmkaðar líkt og ýmsar sértækar afmarkanir og eins og kom fram í fyrri frétt mbl.is verður dregið úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri. Seðlabanki Íslands fær auknar heimildir til upplýsingaöflunar svo hann geti stuðlað að verðlags- og fjármálastöðugleika.
Frá og með 1. janúar á næsta ári verða fjárhæðarmörk hækkuð til fjárfestinga í fjármálagerningum í erlendum gjaldeyri, öðrum peningakröfum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðslu erlendra lána.
Innstæðuflutningur verður heimilaður innan tiltekinna fjárhæðarmarka og skilyrði um innlenda vörsluaðila erlendra verðbréfafjárfestinga fellur niður. Þá geta innlendir og erlendir aðilar flutt innistæður og verðbréf til og frá landinu og átt viðskipti með verðbréf erlendis innan þeirra marka sem frumvarpið setur þeim.
Þá verða heimildir einstaklinga til kaupa á gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega.