Það er strax hægt að ráðast í smærri framkvæmdir til þess að auka umferðaröryggi á þjóðvegum landsins. Þetta sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um dagskrá þingsins á Alþingi í dag.
Sagði hann að á meðan beðið sé eftir meiriháttar vegaframkvæmdum sé hægt að draga úr umferðarslysum með því að merka einbreiðar brýr betur og draga úr umferðarhraða í kringum brýrnar.
„Við heyrum líka talað mikið um að stoppað sé í vegaköntum, sér í lagi erlendir ferðamenn. Hér getum við bara sjálfum um okkur kennt,“ sagði Vilhjálmur og benti á að t.a.m. í flestum Evrópulöndum séu málaðar línur við vegakanta sem sýni að þar megi ekki stöðva bifreiðar og hvað þá leggja. Sagði hann það brýnt mál að merkja vegi landsins með slíkum hætti í stað þess að kalla sífellt eftir stærri og dýrari aðgerðum, s.s. vegaútskotum þó svo að vissulega megi ráðast í slíkar framkvæmdir að hans sögn.
Þá benti hann á að kostnaður við hvert banaslys nemi að lágmarki 100 milljónum króna og flest umferðarslys gerist við gatnamót. Sagði hann kostnað við hvert hringtorg nema um 150 milljónum króna og því væri það þjóðhagslega hagkvæmt að fjölga hringtorgum og fækka banaslysum. Hann sagði að ríkið ætti að ganga í þessi mál strax á meðan „alvöru framkvæmdir“ sé undirbúnar.