„Finnst þetta ekki boðleg taktík“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta bara, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmanni og núverandi þingmanni, ekki boðleg framkoma,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is um þá ákvörðun Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, að sitja hjá við afgreiðslu þingsályktunartillagna ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun og fjármálastefnu fyrir ári 2017-2021.

Eygló sagðist á Alþingi ekki geta stutt þingsályktunartillöguna um fjármálaáætlun þar sem ekki væri að hennar áliti hugað nægilega að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum. Ragnheiður spyr hvaða ráðherra hvenær hafi ekki viljað meira fé í sinn málaflokk. Það væri eitt að gera fyrirvara við mál eins og Eygló hafi sagt að hún hafi gert en annað að styðja ekki stór mál eins og þessi sem farið hafi í gegnum ríkisstjórn, þingflokka og síðan samþykkt á Alþingi.

Frétt mbl.is: Tveir stjórnarþingmenn sátu hjá

„Þetta er fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar og fjármálastefna. Það getur vel verið að ráðherrann hafi gert fyrirvara við málið. En fyrirvarar eru nokkuð öðruvísi en að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um jafnstórt mál,“ segir Ragnheiður. Spurð hvort hún líti á hjásetu Eyglóar sem vantraust á þessa vinnu segir hún að í sínum huga sé það þannig. Á Facebook-síðu sinni í dag spurði Ragnheiður hvort þetta þýddi að Eygló væri á útleið úr ríkisstjórninni.

„Mér finnst þetta vera popúlismi og kosningaskjálfti,“ segir Ragnheiður. „Mér finnst þetta ekki boðleg taktík í pólitík og ég persónulega felli mig ekki við þessa pólitísku taktík. Að fara svona, eins og ég upplifi það, gegn samherjum í ríkisstjórn.“

Ekki hefur náðst í Eygló Harðardóttur vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert