Ástand grásleppuskúranna gömlu við Grímsstaðavör (við Ægisíðu) hefur að undanförnu verið gagnrýnt mjög og sumir hafa beinlínis talið að hætta stafaði af þeim, ef hvessir verulega, eins og fram hefur komið í fréttum hér í Morgunblaðinu.
Borgarfulltrúar í Reykjavík, hvort sem þeir eru úr minnihluta eða meirihluta, virðast vera sammála um að verja beri og varðveita skúrana í sem upprunalegastri mynd, til þess að varðveita minjar um þetta tímabil atvinnusögu Reykjavíkur. Þrátt fyrir það hefur afar litlu fjármagni verið veitt til slíkrar varðveislu.
Starfshópur um menningarminjar við Grímsstaðavör var skipaður á fundi menningar- og ferðamálaráðs hinn 12. janúar 2015. Annar starfshópur, undir forystu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vann að málinu á árunum 2006-2010.
Í áfangaskýrslu starfshópsins frá því í fyrra um grásleppuskúrana segir m.a.: „Hópurinn telur verkefnið mikilvægt, en framkvæmd ræðst af vilja, forgangsröðun og fjármagni. Af nógu er að taka en þar sem verkefnið er enn ekki á fjárhagsætlun eru hendur nokkuð bundnar.“
Fram kemur í skýrslunni að á meðan fyrri starfshópur var að störfum frá 2006-2010 hafi skúrarnir verið hreinsaðir að innan sem utan, bárujárn endurnýjað að hluta, veggjakrot hreinsað, skúrarnir sýrubornir, ný hurð smíðuð á skúr kenndan við Björn Guðjónsson, trönur reistar við og skúrarnir styrktir að innan. Tveir fjölmennir borgarafundir hafi verið haldnir á þessum árum, þar sem komið hafi í ljós mikill áhugi á svæðinu.