„Þetta leysir ekki neinn bráðavanda hjá ungu fólki til að komast inn á húsnæðismarkaðinn eða komast í öruggt húsnæði. Þetta mun vissulega létta undir með ákveðnum hópi en það er spurning hvort það er sá hópur sem mest þarf á aðstoð að halda núna.“
Þetta segir Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, í Morgunblaðinu í dag um boðaðar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum ungs fólks.
Sérfræðingar ASÍ hafa rýnt í tillögurnar og eru fyrstu viðbrögð þeirra þau að fyrirhugaðar aðgerðir gagnist sumum sem standi betur að vígi, helst tekjuháu fólki, sem hafi getu til að fara inn á markaðinn, en ekki öðrum og síst þeim sem standi veikum fótum fyrir, séu á lágum launum, og þeim sem eigi lítið sem ekkert eigið fé.
„Þetta mun vissulega gagnast ákveðnum hópi en fyrir þann hóp sem er verst staddur núna, á ekki eigið fé og hefur ekki getu til að komast í gegnum greiðslumat, er þetta ekki lausnin,“ segir Henný. Hún bendir á að með þessu úrræði taki mjög langan tíma að koma sér upp eigin fé sem dugi til útborgunar í húsnæði.