Starfsmenn fengu hinsegin fræðslu

Frá hinsegin fræðslunni fyrir starfsmenn hafnfirskra grunnskóla í morgun.
Frá hinsegin fræðslunni fyrir starfsmenn hafnfirskra grunnskóla í morgun. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Starfsmenn grunnskóla í Hafnarfirði tóku á móti fræðslufulltrúa Samtakanna '78 á upphafsdegi hinsegin fræðslu innan skólanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. Hinsegin fræðslan hófst á skipulagsdögum í grunnskólunum í vikunni og mun fræðsla til kennara dreifast jafnt yfir komandi skólaár.

Í lok síðasta árs var undirritaður samningur milli Samtakanna '78 og bæjarins um fræðslu á málefnum hinsegin fólks á grunni jafnréttis og sjálfsagðra mannréttinda. Segir í tilkynningunni að vonir standi til þess að fræðslan leiði til aukinnar þekkingar og vitundarvakningar meðal starfsfólks og nemenda um málefni sem varða kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni fólks.

„Þá munu samtökin vera til ráðgjafar fyrir bæjaryfirvöld varðandi námskrárgerð sem tengist málefnum hinsegin fólks og þætti þeirra innan námsviðs samfélagsgreina í grunnskólum,“ segir í tilkynningunni.

Bein fræðsla til nemenda nær til nemenda í áttunda bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar. „Ég fagna því mjög að hinsegin fræðslan sé farin af stað og þar með stigið enn eitt skrefið í átt að auknum fjölbreytileika og fjölmenningu innan skólakerfisins í Hafnarfirði,“ er haft eftir fræðslustjóra Hafnarfjarðar, Fanneyju D. Halldórsdóttur. „Þegar upp er staðið þá er það einstaklingurinn sjálfur sem skiptir öllu máli og nauðsynlegt er að aðstoða hvern og einn við að átta sig á lífinu og tilverunni, áhuga sínum og áformum, og það út frá eigin forsendum og styrkleikum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka