Kostnaður vegna breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlofs sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti í vikunni verður fjármagnaður með tryggingagjaldi. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna fjölgunar barneigna úr 4.000 á ári í 4.700 á ári nemi um 2 milljörðum og þá gæti lenging fæðingarorlofs um einn mánuð kostað frá 1,25 til 2,6 milljarða.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, spurði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma um fjármögnun breytinganna og hver sá kostnaður yrði hár.
Svarði Eygló að unnið væri að kostnaðarmati í ráðuneytinu en að nefndin sem vann að frumvarpinu hafi gert ráð fyrir 2 milljarða hækkun miðað við fæðingar á síðasta ári sem voru um 4.000 og upp í 4.700 börn á ári sem áætlað var að breytingin myndi skila.
Í frumvarpinu er einnig horft til þess að orlofið verði lengt um einn mánuð á árunum 2019-2021. Sú breyting kostar á bilinu 1,25 milljarðar upp í 2,6 milljarða að sögn Eyglóar. Bætti Eygló því við að undanfarið hafi tryggingagjaldið skilað ríkissjóði talsverðum tekjum og með minnkandi atvinnuleysi væri þar fjármunir sem gætu farið í breytingar á fæðingarorlofinu.
Sagðist Birgitta vera mjög hlynnt framlögðum breytingum, en að ráðherra þyrfti þó að finna aðrar leiðir til fjármögnunar. Benti hún á að búið væri að lofa lækkun tryggingagjaldsins og sagði hún gjaldið í dag reynast mörgum smærri fyrirtækjum erfitt. Þá væri ekki réttlætanlegt að nota gjald sem eigi að aðstoða við atvinnuleysi og ráðstafa þeim í önnur ótengd málefni.
Kom Eygló í pontu á ný og sagði að þá þyrftu þær Birgitta að vera ósammála í málinu og að hennar sýn væri að nýta þessa fjármuni til að styrkja barnafjölskyldur. Þá teldi hún einnig rétt að skoða það að nýta tryggingagjaldið til að fjármagna hærri lífeyrisgreiðslur.