„Þung orð“ Bjarna um fjölmiðla

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. Styrmir Kári

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um fjölmiðla sem hann lét falla í færslu á Facebook-síðu sinni vera þung orð. Spurði hún Bjarna hvort bregðast ætti við þeirri aðstöðu sem væri uppi á fjölmiðlamarkaði og sagði Bjarni að til greina kæmi að skoða ytra umhverfi þeirra, svo sem skattaumhverfi.

Katrín tók til máls undir liðnum óundirbúinn fyrirspurnartími og spurði Bjarna út í ummæli hans en þar segir Bjarni að vegna manneklu og fjárskorts séu fjölmiðlar orðnir lítið annað en skel og umgjörð um starfsemi sem þar fer fram á eigin forsendum án stefnu, markmiðs eða skilaboða.

Frétt mbl.is: Fjölmiðlar lítið annað en skel

Sagði Bjarni rétt að skoða úrbætur á umhverfi fjölmiðlafyrirtækja vegna tækniþróunar sem hefði gert fyrirtækjunum erfitt fyrir. Sagði hann rétt að skoða hvort eitthvað í ytra umhverfi fyrirtækjanna, svo sem skattaumhverfi, þyrfti að skoða til að treysta umgjörð fjölmiðlunar og vernda tilgang þeirra. Sagði hann aftur á móti að Katrínu væri nokkuð mikið niðri fyrir út af einni léttri Facebook-færslu.

Bætti Bjarni því við að færslan hefði verið hugrenning um fjölmiðla í landinu og að hann teldi skort vera á sterkum fjölmiðlum með skýra stefnu, en ekki gjallarhorn fyrir þá sem þar starfa. Sagðist hann ekki ætla að biðjast afsökunar á því í þingsal að hafa þá skoðun.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Golli

Katrín sagði Bjarna með þessu vilja fjölmiðla með eina pólitíska skoðun, en Bjarni sagði hana þá leggja sér orð í munn. „Menn geta alveg verið í fjölmiðlarekstri á Íslandi mín vegna og skipt um skoðun á hverjum degi og dælt út hvaða dellu sem er, gjörið svo vel. Þá verður það mín upplifun á viðkomandi fjölmiðli að hann sé ekki markverður, ekkert mark sé á því takandi sem þaðan streymir. Í guðs bænum, ekki leggja mér þau orð í munn að ég ætlist til að það sé einhver tiltekin ritstjórnarstefna eða sérstök pólitík rekin á viðkomandi fjölmiðli, að það eigi að reka fjölmiðla á Íslandi undir einni pólitískri stefnu,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert