Lögreglan á Patreksfirði rannsakar óhapp sem varð innst í Vattarfirði á Vestfjörðum í gær. Bíll hafnaði utan vegar og lenti í sjónum. Þrír voru í bílnum, par og tveggja ára gamalt barn þeirra. Þeim tókst öllum að komast upp í fjöru þar sem vegfarendur aðstoðuðu þau.
Maðurinn slasaðist á fæti en konan og barnið ekkert. Fólkinu er verulega brugðið eftir óhappið en þau voru nýkomin til landsins og ætluðu að dvelja hér í þrjár vikur.
Að sögn lögreglu liggur ástæða þess að bíllinn fór út af veginum ekki fyrir að svo stöddu. Enn á eftir að ræða betur við manninn og konuna. Um er að ræða tveggja til þriggja metra hátt fall niður í sjóinn.
Búið er að ná bílnum, sem er í eigu bílaleigu, upp úr sjónum. Sjúkrabílar voru sendir af stað, bæði frá Patreksfirði og Búðardal en svo fór að tveir vegfarendur óku fólkinu á móti bílnum sem kom frá Búðardal.
Vattarfjörður er stuttur fjörður, sem gengur inn úr Skálmarfirði í Austur-Barðastrandarsýslu. Vattarnes skilur á milli Vattarfjarðar og Skálmarfjarðar.
Frétt mbl.is: Vissi að konan var að berjast í sjónum