Hljóp á fánastöng í miðri eyðimörk

Blindi maraþonhlauparinn Simon Wheatcroft er staddur á Íslandi.
Blindi maraþonhlauparinn Simon Wheatcroft er staddur á Íslandi. Ljósmynd/aðsend

Blindi maraþonhlauparinn Simon Wheatcroft frá Bretlandi er staddur hér á landi en hann flytur meðal annars erindi á sýningunni Fit&Run Expo í Laugardalshöll. Simon vinnur að þróun snjallsímaforrits í samstafi við IBM sem gerir honum kleift að hlaupa óstuddur. Hann mun þó ekki taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn vegna meiðsla en hann varð fyrir því óláni að hlaupa á kyrrstæðan bíl.

Simon er hér á landi á vegum Nýherja en með honum í för eru eiginkona hans og tveir synir. Hann nýtir tækifærið til þess að skoða landið og helstu ferðamannastaði í leiðinni en hann var nýkominn úr Bláa lóninu þegar mbl.is ræddi við hann. „Konuna mína og börnin hefur líka alltaf langað til að heimsækja Ísland,“ segir Simon en hann er hér staddur fyrst og fremst til að kynna tæknina sem hann er með í þróun með IBM.

Sér óskýrar skuggamyndir

Simon fæddist með erfðagalla sem kallast á ensku Retinitis Pigmentosa eða sjónfreknur. 

Simon Wheatcroft.
Simon Wheatcroft. Ljósmynd/aðsend

Sjúkdómurinn gerði það að verkum að sjón hans hrakaði smátt og smátt og hefur hann verið lögblindur frá 17 ára aldri. Í dag sér hann mjög óskýrar skuggamyndir, sér engin smáatriði og greinir ekki andlit.

Þannig var sjón Simon þegar hann byrjaði að hlaupa. „Þetta hófst allt saman á þeirri hugmynd að fara að hreyfa mig og vera utandyra,“ segir Simon. „Ég átti ekki mikinn pening, ég hafði ekki efni á því að ferðast eða kaupa mér kort í ræktina svo ég fór á fótboltavöllinn fyrir aftan húsið mitt og byrjaði að hlaupa fram og til baka."

Hleypur eftir minni

Til að byrja með studdist Simon við snjallsímaforrit sem kallast RunKeeper. „Það sem er áhugavert við RunKeeper er að það var fyrsta snjallsímaforritið sem gaf upplýsingar í gegnum hljóð og maður þurfti ekki að horfa á skjáinn,“ útskýrir Simon.

Fljótlega færði hann hlaupin af fótboltavellinum yfir á lokaðan veg í nágrenninu þar sem hann hóf fyrir alvöru að æfa hlaup. „Þar hófst ferðalag mitt þar sem ég fór að hlaupa eftir minni,“ segir Simon en áður hafði hann lagt stund á krossfimi (crossfit).

Forritið sem Simon og IBM eru með í smíðum er ekki tilbúið en um þessar mundir hleypur hann undir leiðsögn. Svokallaðir hliðarverðir hlaupa samhliða Simon og beina honum rétta leið.

Hljóp frá Boston í New York-maraþonið

Það var ekki fyrr en þremur árum eftir sína fyrstu keppni sem Simon hljóp fyrst maraþon, New York-maraþonið 2014. Ekki var það vegna þess að hann kaus að byrja á styttri vegalengdum, heldur þvert á móti var hans fyrsta keppni 100 mílna hlaup. Síðan þá hefur hann hlaupið þó nokkuð mörg maraþon.

Höfuðstöðvar RunKeeper eru í Boston og taldi Simon því tilvalið að heimsækja höfuðstöðvarnar og hita svo upp fyrir New York-maraþonið með því að hlaupa frá Boston. Að loknu erfiðu 260 mílna hlaupi, frá Boston til New-York, keppti hann svo í sínu fyrsta maraþoni þótt hann væri orðinn vanur hlaupari.

Hljóp á flaggstöng í eyðimörkinni

Í maí á þessu ári gerði Simon sér svo lítið fyrir og hljóp 160 kílómetra leið yfir eyðimörk Namibíu. Simon kaus að taka þátt í eyðimerkurhlaupinu þar sem þátttakendur eru umtalsvert færri en í hefðbundnum borgarmaraþonum en það er einmitt fólk sem líklegast er að verði á vegi manns og erfiðast er að komast hjá.

Ljósmynd/aðsend

„Fólk er óútreiknanlegt og mikið á hreyfingu,“ segir Simon en í eyðimörk er ekkert nema auðn. Eða svo hélt hann. Annað kom á daginn en þegar í eyðimörkina var komið kom í ljós að ýmsar hindranir var þar einnig að finna. Djúp gil, skarpar klettabrúnir, grjót og runnar leyndust þar víða og já, ein fánastöng.

Í eyðimörkinni hljóp Simon með hjálp snjallsímaforritsins sem hann er með í þróun en búið var að kortleggja leiðina nákvæmlega fyrir fram. Fylgst var með honum úr fjarlægð en að öðru leyti hljóp hann óstuddur. Forritið greinir stærri hindranir en ekki litlar og meðalstórar.

„Það fyndnasta var að mér tókst að hlaupa á fánastöng í miðri eyðimörkinni,“ segir Simon hlæjandi. Var það mjög einkennilegt þar sem þær eru ekki á hverju strái í eyðimörkinni. „Þér tókst að hlaupa á þá einu,“ sagði félagi Simon þegar hann spurði hvort þær væri margar að finna á svæðinu. „Ég myndi örugglega aldrei finna hana aftur þótt ég myndi leita.“

Ekkert Reykjavíkurmaraþon í ár

„Það varð örlítið óhapp,“ segir Simon þegar blaðamaður spyr hvort hann ætli að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Fánastöngin í eyðimörkinni er nefnilega ekki eina óvænta hindrunin sem hefur orðið á vegi hans en fyrir nokkrum vikum hljóp hann á kyrrstæðan bíl sem hafði brunnið.  

„Að hlaupa óstuddur hefur augljóslega vandamál í för með sér,“ segir Simon en hann var að æfa sig á lokaða veginum sem hann hefur hlaupið svo oft áður. „Allt í einu fékk ég gríðarlegt högg á fæturna og byrjaði að detta fram fyrir mig,“ útskýrir Simon. Í fyrstu hélt hann að væri hola í götunni en lenti hann svo á einhverju sem honum fannst vera vagn með kolum.

„Hvað í ósköpunum er þetta að gera hérna á miðjum veginum,“ hugsaði Simon með sér. Í ljós kom að daginn áður hafði kviknað í bíl sem var á ferðinni og hafði ökumaður stöðvað bílinn, sem brann til kaldra kola, á veginum. 

Reynir aftur á næsta ári

„Ég hringdi í konuna mína og bað hana að sækja mig þar sem ég var meiddur,“ segir Simon en hann þurfti að fara í hvorki meira né minna en 12 röntgenmyndatökur í kjölfarið. „Ég fékk ljótt sár á kálfann þar sem járnstykki hafði skorist inn, hné mín og olnbogar voru mikið hrufluð og mikið blóð og þurfti að sauma,“ segir Simon.

Ljósmynd/aðsend

„Æ svo braut ég líka nokkrar tær,“ segir Simon mjög yfirvegaður yfir meiðslunum. „Þetta var mjög óheppilegt.“ Hann hélt að líkurnar á því að hlaupa á brunninn bíll á yfirgefnum vegi sem hann er vanur að hlaupa væru sáralitlar. „Ég hélt alltaf að ég myndi frekar verða fyrir akandi bíl,“ segir Simon sem leið hálfkjánalega þegar hann þurfti að útskýra á sjúkrahúsinu hvað gerðist.

Honum þykir ávallt skemmtilegt þegar hann heimsækir ný lönd að prófa að hlaupa á hverjum stað og þykir því svekkjandi að geta ekki tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. „Mig langaði virkilega að hlaupa í Reykjavík en ég held að ég komi bara aftur á næsta ári í staðinn.“ Hann vonast til að ná sér af meiðslunum á allra næstu vikum þar sem mörg hlaup eru fram undan.

Tæknin töfrum líkust

Simon vonast til að snjallsímaforritið verði tilbúið á næsta ári og þá geti hann hlaupið óstuddur en með hjálp forritsins. Forritið mun greina fólk og aðrar hindranir í 5 til 7 metra fjarlægð og láta hlaupara vita með titringi í símanum.

„Það er tæknin sem gerir fólki kleift að gera stórfenglega hluti,“ segir Simon. „Þetta snýst ekki um hlaup sem slíkt heldur hvernig tæknin gerir þér kleift að hlaupa og hvernig þú getur aðlagast með hjálp tækninnar.“

Hlaupið í eyðimörkinni segir Simon vera eitt af þeim afrekum sem standa upp úr ásamt hlaupinu frá Boston til New York. „Að komast í gegnum eyðimörkina er nokkuð sem ég átti aldrei von á að væri raunhæft, en ég gerði það.“

Alltaf að leita að næstu áskorun

„Ég ætla að reyna að slá einhver met og reyna að komast í meistarakeppni í Bretlandi,“ segir Simon, spurður hvað sé næst á dagskrá. Hann hefur háleit markmið enda honum allir vegir færir með hjálp tækninnar. „Ég er alltaf að leita að næstu áskorun, það er ekki einhver tékklisti yfir hluti sem ég ætla að klára, það er alltaf bara spurning hvað er næst.“

Eins og fyrr segir mun Simon flytja erindi á sýningunni Fit&Run Expo í Laugardagshöll á föstudaginn þar sem hann mun segja sögu sína og greina nánar frá töfrum tækninnar. Sýningin er haldin í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið sem fram fer á laugardaginn og má nálgast nánari dagskrá á heimasíðu sýningarinnar og á Facebook.

Jafnframt má kynna sér hlaupagarpinn enn frekar á heimasíðu Simon Wheatcroft.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert