Menningarnótt hefur gengið afar vel og stóráfallaust fyrir sig, að sögn Ágústs Svanssonar, aðalvarðstjóra í aðgerða- og skipulagsdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta hefur gengið vonum framar og kannski bara eins og það á að gera,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann segir að mikill mannfjöldi hafi lagt leið sína í miðbæinn í dag og kvöld. Jákvætt sé hvað allir séu í góðu skapi, enda veðrið gott.
Lögreglumenn eru ánægðir með daginn það sem af er. Þeir hafa þó haft í nógu að snúast og nefnir Ágúst helst umferðarmál í því sambandi. Nokkuð hafi verið um að ökumenn hafi ekki virt lokunarmerki, heldur hent þeim frá. Það getur skapað töluverð vandræði.
Ágúst segir að ekki hafi borið sérstaklega mikið á drykkju eða ölvun í miðbænum í kvöld, allavega ekki það sem af sé. Spurning sé þó hvað nóttin muni bera í skauti sér.
Formlegri hátíðardagskrá Menningarnætur lýkur um ellefuleytið með flugeldasýningu á hafnarbakkanum. Að henni lokinni halda flestir heim á leið.