Þátttökumet í Reykjavíkurmaraþoninu

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega 15 þúsund manns munu í dag taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2016 sem í ár fer fram í 33. sinn. Þegar skráningarhátíð hlaupsins lauk í Laugardalshöll í gær höfðu þannig 15.135 skráð sig til þátttöku.

Samtals eru 1.568 skráðir til þátttöku í heilu maraþoni, 2.920 í hálft maraþon, 147 í boðhlaup, 6.654 í 10 kílómetra, 2.129 í 3 kílómetra og 717 í krakkamaraþon.

Þátttökumet hefur þegar verið slegið í maraþoni og hálfu maraþoni samkvæmt fréttatilkynningu. Rúmlega 4.000 erlendir gestir frá 79 löndum eru skráðir til þátttöku og hafa aldrei verið fleiri.

Tekið verður áfram á móti skráningum í hlaupið á meðan svigrúm verður til í Menntaskólanum í Reykjavík í dag frá klukkan 7:00 en skráning og afhending gagna fyrir þátttakendur í Krakkamaraþoninu fer fram í tjaldi í suðurenda Hljómskálagarðsins frá klukkan tólf.

Hlauparar og áhorfendur eru hvattir til að mæta tímanlega í Lækjargötuna og gera ráð fyrir að það taki lengri tíma að koma sér á staðinn vegna lokana og fjölmennis á svæðinu.

Þá gengur áheitasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka á hlaupastyrkur.is mjög vel. Heildarupphæð safnaðra áheita nálgast 90 milljónir sem er nýtt met í áheitasöfnun hlaupsins. Gamla metið var sett árið 2014 þegar 85,6 milljónir söfnuðust. Áheitasöfnunin verður opin til miðnættis á mánudag.

Dagskrá dagsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert