„Fyrir það fyrsta er þarna verið að viðurkenna að svæði sem njóta einhverrar náttúruverndar skipti einhverju máli þegar kemur að svona framkvæmdum. Það er auðvitað mjög mikils virði.“
Þetta segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, í samtali við mbl.is en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi á föstudag tvo úrskurði um stöðvun framkvæmda vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Úrskurðirnir eru til bráðabirgða á meðan nefndin fjallar um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.
Frétt mbl.is: Úrskurðarnefnd stöðvar framkvæmdir
Landsnet segir að stöðvun sem þessi hafi mikil áhrif á framkvæmdirnar og mögulegt sé að fyrirtækið geti í framhaldinu ekki staðið við skuldbindingar þess vegna Bakka við Húsavík og Þeistareykjavirkjunar. Guðmundur segir að varðandi tal um tafir á þessum framkvæmdum sé algerlega um að ræða heimatilbúinn vanda Landsnets.
„Við fórum fram á það fyrir einu og hálfu ári að umhverfismatið fyrir þessar línur yrði endurgert vegna þess að raforkuþörfin fyrir kísilmálmsverksmiðjuna á Bakka er aðeins 10% af því sem þessar línur eru að bera. Við viljum meina að hægt sé að komast af með minni línur sem hafa minni umhverfisáhrif. Þar með talið að einfaldara væri að setja eitthvað af þessu í jörð.“
Þetta hafi Landsnet hins vegar ekki viljað kanna. „Fyrirtækið hefur haft fjögur ár til þess en það hefur ekki verið gert. Þannig að allt tal um tafir, það er náttúrulega bara fyrirtækinu sjálfu að kenna. Þau verða bara að horfast í augu við það. Þau verða bara að mæta þessari kröfu almenning í nútímasamfélagi að reyna að setja sem mest af þessum línum í jörð.“