„Afar óheppileg staða“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir það óviðunandi að yfir 23 þúsund aldraðir og öryrkjar hafi greitt rúmlega tvöfalt meira í tannlæknakostnað í fyrra en reglugerð ráðherra kveður á um. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær en Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, gerði það að sérstöku umræðuefni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og krafði ráðherra svara.

Afar óheppileg staða og ekki viðunandi

Í frétt Stöðvar 2 kom fram að sjúkratryggingar vanti um 800 milljónir á ári til að geta leiðrétt þennan mun. „Þetta er afar óheppileg staða og ekki viðunandi,“ sagði Kristján Þór og benti á að skýringar á því hvers vegna svona væri komið væru eflaust ótal margar.

Í reglugerð sem ráðherra setti árið 2013 kemur fram hve stóran hluta af kostnaði við tannlækningar þessara hópa sjúkratryggingum er skylt að greiða, en það hlutfall eiga sjúkratryggingar að greiða samkvæmt samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna. Slíkir samningar hafa ekki verið í gildi frá árinu 2004 og því frá sjúkratryggðir greitt samkvæmt gjaldskrá sem Sjúkratryggingar hafa sett. Hún hefur hins vegar ekki hækkað frá árinu 2004.

Ásta Guðrún fór yfir stöðuna í spurningu sinni og benti á að langveikir öryrkjar og aldraðir sem áttu rétt á 100 prósent endurgreiðslu samkvæmt reglugerðinni fengu aðeins 43 prósent af kostnaði endurgreiddan. Öryrkjar og aldraðir sem fá greidda tekjutryggingu sem áttu rétt á 75 prósent endurgreiðslu fengu aðeins 28 prósent endurgreidd í fyrra, eða 38 prósent af því sem þeir áttu rétt á samkvæmt reglugerðinni. Öryrkjar og aldraðir sem fá ekki greidda tekjutryggingu áttu rétt á 50 prósent endurgreiðslu en fengu aðeins 19 prósent af kostnaði endurgreiddan, eða 38 prósent af því sem þeir áttu rétt á.

Tillögur til þingsins í undirbúningi

Í svari sínu í þinginu sagði Kristján Þór að breytingin sem reglugerðin kvað á um hefði verið ófjármögnuð. Þá hefði legið fyrir samningur við tannlækna um tannlæknakostnað barna upp að 18 ára aldri en hann hefði einnig verið ófjármagnaður.

„Það svigrúm sem við höfðum við heilbrigðisútgjöldin var nýtt til þess að fjármagna útgjöldin vegna barnatannlækninganna og síðan hef ég lagt ofuráherslu á að draga úr greiðsluþátttöku almennings í íslenska heilbrigðiskerfinu,“ sagði ráðherrann.

Þá sagði hann að verið væri að skoða gögn frá sjúkratryggingum og meta hvar hægt væri að gera úrbætur. Í undirbúningi væru svo tillögur til þingsins um að hækka kostnaðarhlutdeild ríkisins til að lagfæra þetta ástand, en hin tvö málin hafi verið sett í forgang og því hafi það ekki verið gert fyrr.  

„Það er langur vegur frá að þetta sé ásættanleg staða að hlutdeildin hafi setið föst frá 2004 í þessum tiltekna þætti,“ sagði Kristján Þór. „Það er mikill og ríkur vilji til að bæta þar úr og ég vonast til að geta kynnt það innan skamms tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert