„Frjálslyndur hægri krati“

Þorsteinn Víglundsson gerir ráð fyrir að leiða lista Viðreisnar í …
Þorsteinn Víglundsson gerir ráð fyrir að leiða lista Viðreisnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins, tilkynnti í dag að hann muni gefa kost á sér til kjörs á Alþingi fyrir Viðreisn, og lét við það tilefni af störfum hjá SA. Þorsteinn mun bjóða sig fram fyrir flokkinn í Reykjavík og gerir ráð fyrir að leiða listann í öðru hvoru kjördæmanna.

„Það er margt sem býr að baki svona ákvörðun,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is og kveðst alltaf hafa skilgreint sig sem frjálslyndan hægri krata. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á pólitík og starf mitt fyrir Samtök atvinnulífsins hefur ekki dregið úr þeim áhuga nema síður sé, enda eru margir snertifletir þar við hið pólitíska starf.“

Þorsteinn segir íslenskt samfélag standa frammi fyrir mörgum stórum ákvörðunum um þessar mundir og það hafi orðið til þess að hann ákvað að láta slag standa.

„Við erum að glíma við stóraukinn kostnað í heilbrigðiskerfinu samhliða öldrun þjóðar og hvernig við ætlum að fjármagna það,“ segir hann og kveður þær ákvarðanir ekki síður snúa að lífeyrismálunum.

„Við erum líka með aðkallandi verkefni sem snúa að því að ná sátt um sjávarútvegsmálin og hvernig við náum samspili í hámarki á nýtingu þeirrar auðlindar, samhliða því að tryggja þjóðinni hlutfall í auðlindarentu án þess að það grafi undan stöðu greinarinnar.“

Það sama megi segja um landbúnaðarmáli. Það sé krefjandi verkefni að tryggja að sá stuðningur sem veittur er í landbúnaðinn leiði til hagræðingar í greininni og að neytendur njóti ábatans í formi aukinnar samkeppni í innflutningi og með bættri samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar.

Alþjóðamálin, þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og aðgangur Íslendinga að erlendum mörkuðum séu þá ekki síður mikilvæg. „Það var þetta sem réð úrslitum,“ segir Þorsteinn.

„Þetta voru mál sem mér fannst ég eiga góða samsvörun með því sem hefur verið í gangi hjá Viðreisn og þegar boðið barst þá ákvað ég, eftir að hafa íhugað málið vandlega, að láta slag standa og hella mér út í pólitík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka