Málið reifað á ríkisstjórnarfundi

Reykjavíkurflugvöllur. Horft er eftir hinni umdeildu NA-/SV-flugbraut.
Reykjavíkurflugvöllur. Horft er eftir hinni umdeildu NA-/SV-flugbraut. mbl.is/Rax

Ekki var lagt fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem greina átti frá þeim lagaheimildum sem stuðst var við við sölu á landi í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar. Landið losnaði við lokun neyðarbrautarinnar svonefndu á Reykjavíkurflugvelli.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var málið reifað á ríkisstjórnarfundinum og verður það skoðað áfram á milli funda, en sá næsti er fyrirhugaður í lok vikunnar.

Áhugamenn um Reykjavíkurflugvöll hafa haldið því fram að ráðuneytið hefði í raun ekki haft heimild í fjárlögum til að láta af hendi landið.

Frétt mbl.is: Skýrir frá sölu landsins

Flugvallarstarfsemi ekki lokið

„Hæstiréttur hefur kveðið afdráttarlaust upp dóm um að okkur beri að láta 3. brautina víkja. Það breytir hins vegar ekki því að ríkið er að reka innanlandsflug í Vatnsmýrinni,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra.

„Það skiptir máli að menn líti ekki þannig á að þessi niðurstaða, sem þarna er, feli það í sér að flugvallarstarfsemi sé lokið í Vatnsmýrinni. Þannig er það ekki. Ríkið hefur skyldur þarna gagnvart landsmönnum öllum og mun rækja þær áfram."

Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni telja að mistök hafi verið gerð við söluna á landinu og reikna með því að salan verði látin ganga til baka. Spurð út í þau ummæli segir Ólöf: „Ég hygg að þarna sé um að ræða gerning sem er frá 2013 sem í raun og veru raknaði við við uppkvaðningu dómsins og lokun brautarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert