Fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins mættu á fund atvinnuveganefndar Alþingis í morgun og fóru yfir tölulegar upplýsingar um landbúnaðarframleiðslu á Íslandi með nefndarmönnum. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir nefndina enn stefna að því að afgreiða búvörusamningana úr nefndinni í þessari viku þannig að þeir geti farið fyrir þingið.
Spurður út í gagnrýni Félags atvinnurekenda, um að tekjum af útboði tollkvóta fyrir hvítt kjöt verði ráðstafað til fjárfestinga og stuðnings við svína- og alifuglabændur, segir Jón að stórauknar kröfur hafi verið gerðar til svína- og alifuglabænda sem snúa að aðbúnaði dýra.
„Þetta er til samræmis þeim reglum sem settar hafa verið í Evrópusambandinu,“ segir Jón. „Evrópusambandið veitir bændum mikla aðstoð við að uppfylla þessar reglur og hér hefur verið rætt um hvernig hægt sé að bregðast við því þar sem almennt er ekki framleiðslustyrkur til þessara greina.“
Jón segir að skv. tillögu starfshóps landbúnaðarráðherra sem fjallaði um málið í vor sé lagt til að skoðað verði að andvirði mögulegra tekna af útboði tollkvóta af hvítu kjöti verði notaður til að styðja við bændur í þessum greinum til að uppfylla skilyrðin. „Í drögum að nefndaráliti er tekið undir þau sjónarmið. Einnig er tekið undir að heimilað verði að nota framlög sem ætluð eru til fjárfestingar í greininni til úreldingar hjá þeim bændum sem kjósa að bregða búi.“
Að sögn Jóns gera tillögur starfshópsins einnig ráð fyrir að hagstæður lánaflokkur verði í boði hjá Byggðastofnun til að létta undir með breyttum aðbúnaðarreglugerðum. „Með einhverjum hætti verðum við að taka þátt í að laga samkeppnismöguleika þessara aðila til samræmis við það sem er að gerast innan ESB þótt vitað sé að við munum ekki ganga eins langt og þar er farið í þessu efni,“ segir hann.