„Það er mikið að gerast í íslenskum sjávarútvegi og miklu meira en menn gera sér almennt grein fyrir,“ segir dr. Ágúst Einarsson, prófessor og höfundur bókarinnar Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi, sem kom út á dögunum.
Í bókinni kemur meðal annars fram að framlag sjávarútvegs og tengdra atvinnugreina til landsframleiðslu Íslands sé 20%, sem geri sjávarútveg að mikilvægustu atvinnugrein landsins. Þá sé framleiðni í sjávarútvegi talsvert meiri en í öðrum atvinnugreinum. Alls starfa um 24 þúsund manns í sjávarútvegi, veiðum, vinnslu, við markaðsstarf, dreifingu og ýmsar framleiðslu- og þjónustugreinar sem sprottnar eru upp úr sjávarútvegi.
„Venjulega er sagt að veiðar og vinnsla, eða hefðbundinn sjávarútvegur eins og við skilgreinum hann, skili um 8-9% til landsframleiðslunnar en sjávarútvegur er svo mikið meira en þetta,“ segir Ágúst og bendir á að framleiðsla í tengslum við sjávarútveg, svo sem á vélbúnaði og veiðafærum, sé mikil auk þess sem markaðsstarf í kringum greinina sé mun meira en fyrir nokkrum áratugum. Þegar allt sé tekið saman sé framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslunnar um og yfir 20%, sem sé mjög mikið og meira en í öðrum atvinnugreinum.
Afköstin séu einnig mjög há á alþjóðavísu, en þó að sífellt færri starfi sem sjómenn eða í fiskvinnslu eru verðmætin sífellt meiri. „Verðmætasköpunin er sífellt að aukast og þetta á alls ekki við um margar atvinnugreinar hér á landi og raunar fæstar,“ segir Ágúst.
Hann segir ferðaþjónustuna vissulega mikilvæga atvinnugrein sem skili miklum gjaldeyristekjum, en þegar allar gjaldeyristekjur sjávarútvegsins séu teknar saman eigi hann vinninginn. Meginniðurstaða bókarinnar er auk þess sú að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs er sterk í alþjóðlegu samhengi.
Að sögn Ágústs hefur mikilvægi sjávarútvegsins fallið í gleymsku hjá Íslendingum, en greinin sé enn mjög mikilvæg. „Sjávarútvegur er sá atvinnuvegur sem kom undir okkur fótunum í upphafi 20. aldarinnar og breytti í raun íslensku samfélagi úr mjög frumstæðu miðaldasamfélagi í nútímalegt borgarsamfélag með mjög góð lífskjör, sem eru enn í dag ein bestu lífskjör í heiminum. Þetta er fyrst og fremst sjávarútveginum að þakka þó svo að fleiri atvinnugreinar hafi komið fram síðustu áratugi. En ég kalla 20. öldina öld sjávarútvegsins og ég færi rök fyrir því að það er réttnefni að mínu mati.“
Ágúst segir sjávarútveg hins vegar ekki hafa farið að skipta höfuðmáli hér á landi fyrr en seint á 19. öldinni og svo á 20. öldinni. „Fram að því var sjávarútvegur ekki þessi aðalatvinnugrein eins og víða. Það sést meðal annars á því að allt fram á 14. og 15. öld eru útlendingar að veiða hér í stórum stíl á meðan við erum ekki að nýta fiskimiðin.“
Það hafi svo ekki verið fyrr en seint á 20. öld sem Íslendingar náðu fullum yfirráðum yfir auðlindinni, sem gat vissulega ekki gerst fyrr en eftir að þjóðin öðlaðist sjálfstæði. „Það er besta ákvörðun sem íslenskt lýðveldi tók eftir 1944 að færa út landhelgina. Það tók 30 ár en það tókst og það gat byggt áfram þennan grunn undir þessa velmegun sem við búum við enn í dag.“
Ágúst segir áhugavert að fylgjast með þróun í sjávarútvegi, og nýsköpun sem spretti upp úr honum. Ekki sé óalgengt að ýmiss konar lyfjaframleiðsla sem byggi á sjávarútvegi eigi sér stað og mikil gróska sé í iðnaðinum. Þá sé verið að fullvinna vörur og flytja út ferskan unninn fisk til endanlegs kaupanda, sem sé mun beinni markaðssetning en áður.
„Það er mikið að gerast í íslenskum sjávarútvegi og miklu meira en menn gera sér almennt grein fyrir. Menn hafa svolítið sett þessa atvinnugrein til hliðar í almennri umræðu. Það eru margar ástæður fyrir því. Það hefur verið ósætti um marga hluti í tengslum við sjávarútveg eins og fiskveiðistjórnunina,“ segir Ágúst.
Þá fer Ágúst yfir það hvernig sjávarútvegur er rekinn í öðrum löndum í bókinni. „Nú er stærstur hluti sjávarútvegs í heiminum í Asíu og langstærsta sjávarútvegsþjóð í heimi er Kínverjar, bæði í fiskeldi og veiðum,“ segir Ágúst. Hann bendir á að margar þeirra asísku þjóða sem séu framarlega í fiskveiðum séu fátækar þjóðir sem standi að mörgu leyti í sömu sporum og Íslendingar fyrir 100 árum. „Þær eru að reyna að afla sér viðurværis og betri lífskjara og gengur ágætlega.“
Hann fer einnig inn á fiskeldið, sem hann segir Íslendingum hafa mistekist að byggja upp þrátt fyrir að það svið hafi verið í mestri sókn í sjávarútvegi á alþjóðavísu síðustu tíu til tuttugu ár. „Við höfum ekki tekið þátt í þessu. Norðmenn eru með fremstu fiskeldisþjóðum í heimi og Færeyingar eru með miklu meira fiskeldi en við nokkurn tímann. Þarna hefur okkur mislukkast. Við fórum af stað á sínum tíma með þetta en gerðum ekki nægar rannsóknir og skoðuðum þetta ekki nægilega vel,“ segir hann.
En hvers vegna að ráðast í þessi skrif? „Bók af þessu tagi hefur ekki verið skrifuð áður á íslensku og mér fannst nauðsynlegt að bæta úr því,“ segir Ágúst. „Ég er mikill áhugamaður um skrif á íslensku um efni fræðilegs eðlis. Bókin er skrifuð út frá fræðigreininni hagfræði en hún er hins vegar vel aðgengileg og læsileg þrátt fyrir að fólk hafi ekki hagfræðimenntun.“
Ágúst segir að eftir að hann hafi lokið verkinu hafi hann verið hissa á því hversu umfangsmikill sjávarútvegur sé í íslensku þjóðfélagi. „Ég þekki greinina ágætlega; vann við hana lengi og er sprottinn upp úr þessu umhverfi og hef kennt í tengslum við sjávarútveg og finnst þetta bara spennandi. Það má segja að það sé áhugamál mitt að skrifa og þarna fannst mér að þyrfti að bæta úr þar og ég vona að mér hafi tekist það.“