Átta þingmenn vilja gera breytingu á lögum um náttúruvernd sem gerir það að verkum að óheimilt verður að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri á hálendinu og þjóðvegum landsins, nema í þar til gerð ílát.
Vilja þeir að hægt verði að sekta fyrir brot að þessu tagi og að sektin verði að lágmarki 100 þúsund krónur.
Þetta er í annað skipti sem frumvarpið er lagt fram.
Í greinargerð frumvarpsins segir að rusl sem fleygt er á víðavangi sé augljóst lýti á umhverfinu. „Með því að láta slíkt framferði óáreitt sköðum við þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru. Erlendis er þekkt að greiða þarf háar sektir fyrir að henda rusli á víðavangi,“ segir í greinargerðinnni.
Þingmennirnir sem standa að baki frumvarpinu eru þau Guðlaugur Þór Þórðarson, Elín Hirst, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Valgerður Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.
Standist dagskrá Alþingis verður mælt fyrir frumvarpinu í dag.