„Viljinn til góðra samskipta gagnkvæmur“

Ráðherrarnir tveir.
Ráðherrarnir tveir.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fundaði í dag með Vladimir Títov, varautanríkisráðherra Rússlands. Til umfjöllunar voru efnahagsmál, tvíhliða samskipti Íslands og Rússlands, svæðisbundin málefni og alþjóðamál.

„Ráðherrarnir ræddu meðal annars leiðir til að auka möguleika á viðskiptum milli landanna auk þess sem málefni norðurslóða og önnur svæðisbundin samvinna var til umfjöllunar. Þá ræddu ráðherrarnir öryggismál í Evrópu og stöðuna við botn Miðjarðarhafs,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

„Rússland er mikilvægt samstarfsríki Íslands á mörgum sviðum og viljinn til góðra samskipta er gagnkvæmur. Svæðisbundið samstarf er mjög gott, til dæmis á norðurslóðum og innan svæðisbundinna stofnana. Á fundinum gafst okkur kærkomið tækifæri til að ræða um ýmis mál, þar með talin viðskipti milli þjóðanna sem við viljum auka þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þá var áhugavert að ræða við Títov og skiptast á skoðunum um brýn pólitísk úrlausnarefni á sviði alþjóðamálanna,“ er haft eftir Lilju.

Títov fundaði einnig með embættismönnum utanríkisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert