„Það er verið að lengja bata- og sársaukaferli barnsins og það erum við mjög ósátt við,“ segir Ari Elíasson, faðir níu ára gömlu Lilju Lífar, sem handleggsbrotnaði illa á mánudagskvöld. Lilja þarf að bíða fram á föstudag til að komast í aðgerð, en hún er langveik og með Downs-heilkenni, sem Ari segir gera stöðuna enn erfiðari.
Frétt mbl.is: „Óeðlilega langur biðtími“
Lilja var að klifra yfir grindverk á mánudagskvöld þegar hún féll niður og meiddi sig í hendinni. Þar sem Ari starfaði sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður í fimmtán ár segist hann strax hafa séð ummerki um greinilegt brot og fór því með dóttur sína beint á slysadeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar voru teknar myndir af brotinu og sendar á Landspítalann í Fossvogi þar sem tekin var ákvörðun um að hún skyldi sett í gips-spelku yfir nóttina.
„Okkur var sagt að gefa henni verkjastillandi og bíða svo fram á morgun því þá myndum við fá símtal frá bæklunardeildinni í Fossvogi,“ segir Ari, en hann stóð í trú um það að dóttir sín myndi fara í aðgerð strax á þriðjudeginum. Morguninn eftir fengu foreldrarnir hins vegar símtal þar sem þeim var tjáð að Lilja yrði send í aðgerð annað hvort á miðvikudag eða á föstudag.
„Okkur datt ekki til hugar að það myndi líða svo langur tími og vorum viss um að hún færi í aðgerðina á miðvikudaginn. Við tókum eiginlega ekki annað í mál,“ segir Ari, en hann fékk símtal síðar um daginn í gær þar sem honum var tjáð að tími hefði verið bókaður fyrir Lilju í aðgerð á föstudagsmorgun. „Ég sagði auðvitað að ég væri mjög ósáttur við þetta. Ég er með barn sem er langveikt og með langa sjúkrasögu og fæ þarna að heyra að hún þurfi að bíða í 84 klukkustundir frá því þetta gerist þar til hún kemst inn í aðgerð.“
„Ég talaði við svæfingahjúkrunarfræðing í morgun sem hefur starfað þarna í 20 ár og hún segist aldrei hafa heyrt af því að barn þurfi að bíða svona lengi með svona brot,“ segir Ari og bætir við að hann hafi einnig talað við félaga sinn sem vinnur í heilbrigðisgeiranum sem sagði að brotið væri ljótt og undraði sig á því að barnið væri látið bíða svo lengi eftir að komast í aðgerð.
Ari segist loks hafa fengið þau svör í morgun að ástæðan fyrir töfinni væri mikill flöskuháls á vöknunardeild spítalans. Þar sem svæfa þurfi Lilju sé ekki hægt að framkvæma aðgerðina fyrr en pláss losnar á deildinni. „Það er víst svo mikið af ferðamönnum að slasa sig að það er allt yfirfull,“ segir hann. „En ef börnin okkar eru farin að líða fyrir þetta þá erum við á rangri hillu.“
Ari segir dóttur sína ekki geta tjáð sig eins og önnur 9 ára gömul börn og því geti hún ekki sagt foreldrum sínum hversu mikill verkurinn er á skalanum 1-10. „Hún segir bara að henni sé illt í hendinni. Hún er með mjög háan sársaukaþröskuld svo hún ber sig þokkalega en við erum líka að verkjastilla hana með parkódínlyfjum,“ segir Ari en bætir við að lyfin fari mjög illa í Lilju. Þau hafi til að mynda valdið þvagvandamálum, og hún hefur átt erfitt með að halda þvagi síðustu daga.
Hann segir dóttur sína þó ótrúlega duglega þrátt fyrir að hafa mátt þola margt í gegnum sín veikindi. „Við erum ýmsu vön og höfum farið með hana í gegnum ýmislegt svo þetta er ekki áfall sem slíkt heldur er áfallið fyrst og fremst tíminn. Að þurfa að vera vitni að því að barnið sitt þurfi að bíða í þetta langan tíma áður en brugðist er við.“
„Hún veit vel að hún datt illa, að hún sé í gipsi og með brotið bein. Hún fer mjög hægt um og er ekki alveg lík sjálfri sér,“ segir Ari og bætir við að Lilja hafi kvartað töluvert undan verkjum í morgun og hafi einnig verið mjög óróleg í nótt.
Ari segist hafa þurft að sætta sig við að bíða fram á föstudagsmorgun, en hann ætli hins vegar ekki að þegja yfir málinu. „Ég efast ekki um það að starfsfólkið á bæklunardeildinni, skurðlæknarnir og sérfræðingarnir séu hinir mestu fagmenn því við eigum mikið fagfólk í heilbrigðisgeiranum. En ég vil ekki að svona gerist aftur og að börnin okkar þurfi að bíða í fjóra sólarhringa eftir að komast í aðgerð eftir jafn alvarlegt brot.“